Lög um listamannalaun samþykkt

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Ný lög um fjölgun þeirra sem fá greidd listamannalaun voru samþykkt á Alþingi í dag með 21 atkvæði gegn fjórum. Níu þingmenn greiddu ekki atkvæði.

Með lögunum verður mánaðarlaunum sem úthlutað er sem starfslaunum til listamanna fjölgað á þriggja ára tímabili um alls 400 þannig að á árinu 2012 verði samtals 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna nú. Þá verða mánaðarlaun starfslauna ákveðin upphæð, 266.737 krónur, sem kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga hvert ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.

Gert er ráð fyrir þremur nýjum launasjóðum, þ.e. fyrir hönnuði, sviðslistafólk og tónlistarflytjendur og að heiti á Tónskáldasjóði verði breytt í launasjóð tónskálda.

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt frumvarpið þar sem fjárrmagna eigi aukin útgjöld vegna fjölgunar listamanna sem fá listamannalaun, með lántökum. Pétur H. Blöndal Sjálfstæðisflokki sagði að auka ætti skuldir ríkissjóðs til að greiða listamönnum og sagðist hann vera eindregið á móti því á sama tíma og skert væri þjónusta í heilbrigðiskerfinu og menntageiranum og víðar í samfélaginu.

Mörður Árnason Samfylkingu fagnaði samþykkt laganna og sagði bæði skynsamlegt og sanngjarnt að fjölga þeim sem fá greidd listamannalaun en það hefði ekki verið gert undanfarin 13 ár. Furðaði hann sig á að sjálfstæðismenn kæmu í bakið á varaformanni sínum, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrv. menntamálaráðherra, sem hefði undirbúið þetta mál á sínum tíma og stutt það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert