Segja sjálfstæðismenn hafa varpað grímunni

Birgir Ármannsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi.
Birgir Ármannsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi. mbl.is/Ómar

Þingmenn Framsóknarflokks og Samfylkingar sögðu á Alþingi í dag, að þingmenn Sjálfstæðisflokks hefðu varpað grímunni með því að leggja til á fundi sérnefndar um stjórnarskrármál í dag, að auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar verði ekki breytt. Sjálfstæðismenn sögðust hins vegar hafa verið að leggja fram tillögu til sátta.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að sér væri brugðið eftir fundinn í stjórnarskrárnefndinni en þar hefðu sjálfstæðismenn fellt grímuna með tillögu um breytingar á auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar.  Því væri ljóst, að þeir vildu ekki festa í stjórnarskrá að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign.

Tillaga sjálfstæðismanna að orðalagi er eftirfarandi:

„Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeign og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum."

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði að nú væri komin í ljós ástæðan fyrir því, að sjálfstæðismenn hefðu haldið þinginu í gíslingu undanfarnar vikur. Þeir væru að ganga erinda þeirra, sem ekki vilji girða fyrir, að náttúruauðlindar verði seldar eða látnar af hendi með varanlegum hætti. Þeir væru að ganga erinda útgerðarauðvaldsins, ganga erinda LÍÚ, sægreifanna og kvótakónganna. 

Þingmenn Sjálfstæðisflokks sögðust ekki skilja þessa umræðu. Jón Magnússon sagði, að sjálfstæðismenn hefðu verið að rétta fram sáttarhöld í sérnefnd um stjórnarskrármál. Flokkurinn væri reiðubúinn að standa að breytingum á stjórnarskrá og vilji stuðla að því að þær breytingar séu undirbúnar með vönduðum hætti.

Sjálfstæðismenn lögðu til á fundi sérnefndarinnar í dag, að einu breytingarnar, sem gerðar verði á stjórnarskránni nú, verði eins og stjórnarskrárnefnd, skipuð fulltrúum allra flokka, lagði til 2007. Þær tillögur lutu eingöngu að því hvernig breytingum á stjórnarskrá verði háttað.

Þá leggja þeir einnig til að skipuð verði stór nefnd um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem skili af sér eftir tvö ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert