Stærsta vinstrisveifla sögunnar

Leiðtogar stjórnmálaflokkanna í sjónvarpssal í kvöld.
Leiðtogar stjórnmálaflokkanna í sjónvarpssal í kvöld. mbl.is/Kristinn

Fyrstu tölur kosninganna staðfesta það sem skoðanakannanirnar höfðu sýnt; stærstu vinstrisveiflu sögunnar. Vinstriflokkar hafa aldrei áður haft meirihluta á Alþingi. Samfylkingin og vinstri græn höfðu samanlagt 41,1% atkvæða eftir síðustu kosningar, en nú benda tölur til að fylgi flokkanna stefni í um 53-54%. Það þýðir sömuleiðis að ríkisstjórnin, sem var minnihlutastjórn, er nú orðin meirihlutastjórn ef flokkarnir ná saman um nýjan málefnagrundvöll.

Önnur söguleg niðurstaða - miðað við fyrstu tölur - er að flokkar, sem hafa umsókn um aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni, bæta við sig og hafa meirihluta á Alþingi.

VG tapar á lokasprettinum
Útkoma Vinstri grænna er mun lakari en skoðanakannanirnar bentu til. Í síðustu könnun Capacent Gallup var þeim spáð yfir 26%, en flokkurinn stendur nú í rúmlega 20%. Þetta hefur gerzt áður; VG tapar yfirleitt fylgi á lokasprettinum. Einhverra hluta vegna fóru forsvarsmenn flokksins að tala óvarlega um olíuvinnslu og þjóðnýtingu rétt fyrir kjördag. Kvöldið fyrir kosningar girti Steingrímur J. Sigfússon svo nánast fyrir skjóta umsókn um aðild að ESB. Sennilegt er að Samfylkingin hafi grætt á því.  Flokkurinn fær sína beztu útkomu í sögu sinni með yfir 32% atkvæða og bætir við sig um sex prósentustigum frá síðustu kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn bíður afhroð í kosningunum; fær nokkurn veginn jafnvonda kosningu og honum hafði verið spáð. Með 23% fylgi hefur flokkurinn fengið sína verstu útkomu í 80 ára sögu. Þetta var hlutskipti Framsóknarflokksins í síðustu kosningum; flokkurinn fékk þá 11,7% og hafði aldrei fengið minna. Samkvæmt fyrstu tölunum bætir Framsókn lítillega við sig; aðallega þó á suðvesturhorninu þar sem flokkurinn fékk skelfilega niðurstöðu síðast. Þetta bendir til að ný forysta flokksins höfði fremur til þéttbýlisins en landsbyggðarinnar - og þingflokkurinn getur ekki lengur haldið fundi sína í jeppa.

Hrist upp í flokkakerfinu
Nú er heldur betur búið að hrista upp í hinu hefðbundna flokkakerfi. Í fjórflokkakerfinu, sem hefur verið furðustöðugt frá því um 1930, var Sjálfstæðisflokkur stærstur, þá kom Framsóknarflokkur, svo Alþýðubandalag og forverar þess og Alþýðuflokkurinn var minnstur. Nú er krataflokkurinn orðinn stærstur, Framsóknarflokkur minnstur fjórflokkanna (var reyndar orðinn það í síðustu kosningum), Sjálfstæðisflokkur næststærstur og sósíalíski flokkurinn áfram þriðji.

Fimmti flokkurinn hefur iðulega trítlað með í eitt eða tvö kjörtímabil, aldrei meira en fjögur. Frjálslyndi flokkurinn virðist nú úr sögunni, sem kemur ekki á óvart, en í hans sæti kemur Borgarahreyfingin með um 7% fylgi.

Meirihluti fyrir aðildarumsókn
Samfylkingin er nú í sterkari stöðu en áður til að setja aðild að Evrópusambandinu á dagskrá í ríkisstjórnarsamstarfinu. Þar ræður tvennt; annars vegar sá aflsmunur stjórnarflokkanna sem lesa má út úr fyrstu tölunum, hins vegar að Samfylkingin á nú kost á að mynda meirihlutastjórn með Framsóknarflokknum og Borgarahreyfingunni, en báðir þessir flokkar vilja sækja um aðild að ESB. Þannig er þingmeirihluti fyrir aðildarumsókn (og má sennilega telja hluta af Sjálfstæðisflokknum til viðbótar).

Hvort VG vill hætta á að detta út úr ríkisstjórninni fremur en að gera málamiðlun um Evrópumálin, á eftir að koma í ljós. Í umræðum flokksleiðtoga í Ríkissjónvarpinu fyrir stundu var ekki annað að heyra á forystumönnum stjórnarflokkanna en að þeir myndu láta reyna á áframhaldandi samstarf.

Ýmislegt getur breytzt

Taka þarf fyrstu tölum með ákveðnum fyrirvara. Ef rétt er að mikið sé um útstrikanir á atkvæðum greiddum Sjálfstæðisflokknum, gæti hann aukið fylgi sitt þegar líður á nóttina. Sömuleiðis gæti VG átt eftir að bæta við sig þegar talið verður upp úr síðustu kössunum, vegna hins mikla fylgis flokksins hjá ungu fólki, sem oft kýs seint. Kosninganóttin er ennþá ung.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert