Getum valið úr öðrum kostum

mbl.is/Ómar

„Við erum stærsti flokkurinn og getum valið úr tveimur eða þremur möguleikum til stjórnarmyndunar, menn skulu ekki gleyma því,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir í leiðtogaþætti RÚV í kvöld. Henni fannst sem aðrir leiðtogar stjórnmálaflokka gerðu lítið úr útkomu Samfylkingarinnar í kosningunum. Formenn stjórnarflokkanna tókust á um hvernig bæri að túlka úrslitin með tilliti til ESB.

 „Ég er dálítið hugsi eftir nóttina, morguninn og daginn yfir yfir því að fjölmiðlar og fréttaskýrendur tala um þetta eina mál, [ESB]. Eins og þetta sé það eina sem skiptir máli í íslenskum stjórnmálum í dag. Það er dálítill hrollur í mér vegna þess. Ég velti því fyrir mér, er þá allt sem snýr að vanda heimilanna, atvinnulífsins, ríkisfjármálunum og glímunni við þau og hlutina sem eru hér heima og í höndum okkar og þarf að að takast á við nú, er það þá orðið eitthvert aukaatriði? Menn túlka úrslit þessara kosninga, flestir spekingarnir, út frá þessu eina máli og það á mjög sérkennilegan veg,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.

„Mér finnst hver formaðurinn á fætur öðrum reyna að gera lítið úr þessum stórsigri okkar jafnaðarmanna. Þetta er stærsti sigur okkar frá upphafi lýðveldisstofnunar. Í fjórum kjördæmum af sex erum við stærsti flokkurinn og við erum raunverulega komin í þá stöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í gegnum áratugina. Við erum stærsti flokkurinn og getum valið úr tveimur eða þremur möguleikum til stjórnarmyndunar, menn skulu ekki gleyma því. Og ég get vel tekið undir það með Steingrími, það er alveg rétt hjá honum, að það eru stór viðfangsefni sem blasa hér við,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir.

Hún sagði eitt af stærstu verkefnunum nýja þjóðarsátt. Ná þyrfti sátt í samfélaginu með ýmsum hagsmunaaðilum, aðilum vinnumarkaðarins og sveitarfélögunum um ýmislegt sem þyrfti að takast á við í ríkisfjármálum og í atvinnumálum.

„En það er bara ekki hægt að loka augunum fyrir því að niðurstaða þessara kosninga var öðrum þræði um Evrópusambandsaðild. Og þó það sé mikilvægt að taka á þessum brýnu viðfangsefnum sem eru framundan á næstu vikum og mánuðum þá er það bara brýnt að stjórnmálaflokkar hafi framtíðarsýn um hvernig þeir sjá fyrir sér stöðugleika hér til frambúðar, bæði fyrir atvinnulífið og fyrir heimilin í landinu. Og ég er sjálf mjög sannfærð um það að ef við sendum frá okkur þessi skilaboð, að við ætlum að sækja um aðild að ESB, þá mun það hjálpa okkur verulega í þeim stöðugleika sem við þurfum að ná fram hér á næstu vikum og mánuðum. Og ég hef trú á því að það sé meirihluti fyrir því á Alþingi, ef á það reyndi, aðildarumsókn að ESB,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert