Siv vill skoða ESB-stjórnarsamstarf

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

„Ég er tilbúin til að skoða alla möguleika, þar með talinn möguleikann á samstarfi Framsóknarflokks, Borgarahreyfingar og Samfylkingar um ESB-aðild,“ segir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.

Hún segist líka tilbúin að skoða möguleikann á samstarfi við VG og Samfylkingu, rétt eins og að vera í stjórnarandstöðu og veita þar aðhald.

„En það er alveg ljóst að Vinstri grænir eru búnir að grafa sig ofan í mjög djúpa holu. Ögmundur [Jónasson] segir að það vitlausasta sem við gætum gert, væri að ganga inn í Evrópusambandið. Þeir eru í miklum vanda með þetta mál og ég sé ekki alveg hvernig þessir flokkar ætla að ná saman á næstunni. Það er hins vegar hægt að mynda hér stjórn með Samfylkingu, Framsókn og Borgarahreyfingu, sem væri þá tilbúin til þess að sækja um ESB-aðild, með okkar ströngu skilyrðum,“ segir Siv.

Þráinn Bertelsson, nýkjörinn þingmaður Borgarahreyfingarinnar segir afstöðu síns flokks ljósa.

„Við viljum þjóðaratkvæðagreiðslur um stór og mikil mál. Við treystum ekki stjórnmálaflokkunum til að leysa þau án samráðs við Þjóðina. Þjóðin á að hafa síðasta orðið um Evrópusambandið. Tvennar kosningar um ESB er bara bjánaskapur, það er bara taktík til að tefja mál og við stöndum ekki í neinu svoleiðis rugli eða blekkingarleik. Það sem er eðlilegast er að sótt verði um aðild að ESB. Síðan verði sá samningur sem þar næst, kynntur rækilega fyrir þjóðinni og greidd um hann atkvæði,“ segir Þráinn Bertelsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert