VG verður að gefa eftir í Evrópumálum

Sigmundur Davíð á kosningavöku Framsóknarflokksins í kvöld.
Sigmundur Davíð á kosningavöku Framsóknarflokksins í kvöld. mbl.is/Kristinn

„Ég er mjög sáttur við niðurstöðu okkar flokks. Við jukum fylgið um fjórðung frá síðustu könnun og um helming frá því viku fyrir kosningar. Reyndar er ég mjög svekktur yfir því að missa þarna rétt í lokin tíunda mann Framsóknarflokksins með nokkrum atkvæðum. Það hefði verið mjög góð viðbót í þingflokkinn. En við tókum þetta dálítið mikið á lokasprettinum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Hann segir útkomu annarra flokka líkt og búast mátti við. VG vinni sigur, sjálfstæðismenn hafi reyndar ekki skilað sér jafnvel og hann bjóst sjálfur við og Samfylkingin sé nokkurn veginn með það fylgi sem verið hefur að undanförnu.

„Ég tel reyndar að fylgi Samfylkingarinnar sé viðkvæmara nú en oft áður vegna þess að það byggist svo mikið á tveimur hlutum. Annars vegar Jóhönnu Sigurðardóttur og hins vegar Evrópusambandinu. Ég held að verulegur hluti hafi kosið flokkinn út á Evrópustefnuna.“

Stjórnarflokkarnir, VG og Samfylking fengu samtals 34 þingmenn og fátt sem bendir til annars en að stjórnarsamstarf flokkanna verði endurnýjað.

„Nú verður áhugavert að sjá hvort að VG gefur eftir í Evrópumálum. Það er eiginlega ómögulegt fyrir Samfylkinguna að gefa eftir í sinni stefnu gagnvart ESB. Þetta veltur svolítið á VG hvort þeir eru tilbúnir að gefa eftir eða ekki,“ segir Sigmundur Davíð.

Hann segir aðra kosti í stöðunni en enginn þeirra sé góður.

„Það eru veruleg vandkvæði á öllum kostum. Ef við tökum til að mynda Evrópusambandsstjórn eða samstarf Framsóknarflokks, Borgarahreyfingar og Samfylkingar, þá hefði sú stjórn 33 manna meirihluta. Það er tiltölulega lítill meirihluti fyrir stjórn, þar sem inni er einn nýr flokkur sem hefur þá stefnu að hver og einn þingmaður sé fríspilandi. Því til viðbótar er Samfylkingin með mikinn og stóran hóp nýs fólks sem maður veit ekki alveg hvernig mun haga sér. Það væri því ekki mjög tryggur meirihluti í slíkri stjórn,“ segir Sigmundur Davíð.

Samstarf VG og Sjálfstæðisflokks kemur vart til greina í nokkurri mynd en í ályktun sem samþykkt var á landsfundi VG í mars segir að Vinstri græn muni ekki taka þátt í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert