Atli: Atvinnuleysið er þjóðarböl

Atli Gíslason
Atli Gíslason

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segir að það sé ekki aðild að Evrópusambandinu sem skipti máli í dag heldur bráðavandi heimila og fyrirtækja í landinu. Hann líkir atvinnuleysinu við þjóðarböl og útilokar ekki að mynduð verði þjóðstjórn og flokkspólitískum línum sópað út af borðinu.

Að sögn Atla er ályktun landsfundar VG skýr hvað varðar Evrópusambandsaðild og hann telji að ekkert hafi breyst í þeim efnum. VG hafi unnið stórsigur í kosningunum á laugardag og þá ekki síst vegna afstöðu sinnar til aðildar að ESB. Hann kannast ekki við að það sé klofningur innan VG hvað varðar mögulega aðildarumsókn og að þeir sem vilji skoða aðildarumsókn séu í miklum minnihluta.

Hann segist hins vegar telja að það sé vel hægt að leysa þennan ágreining milli Samfylkingarinnar og VG hvað þetta varðar. „Ég held að þetta leysist og enga trú á öðru. En ef Samfylkingin sækir þetta mjög fast og setur þetta sem úrslitakost sem mikilvægasta málefni þjóðarinnar í dag þá á hún möguleika á öðru samstarfi," segir Atli.

Hann segist hins vegar telja að ESB aðild sé nánast aukaatriði miðað við það ástand sem er á efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er lang brýnast að fara í það mál og það þarf að hugsa um það í dag, á morgun og hinn daginn. Hins vegar yrði aðild að ESB ekki fyrr en eftir tvö ár og evran eftir sjö - átta ár. Þannig að þetta er ekki brýnasta úrlausnarefnið það er langt í frá."

Atli segist hafa þá hugmynd persónulega að myndun þjóðstjórnar sé skynsamleg líkt og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, stakk upp á sl. haust en þáverandi ríkisstjórn hafnaði.

„Sú hugsun hefur skotist upp í hugann að við snúum bökum saman, öll sem eitt og leysum þetta. Færum til hliðar flokkspólitískt dægurþras. Því málið er að staða okkar er mjög alvarleg."

Atli tekur það hins vegar skýrt fram að þetta séu hans hugmyndir ekki flokksins en hann muni reifa hana meðal flokkssystkina sinna. „Langmikilvægasta málið er að leysa efnahagsvandann, vanda heimila og fyrirtækja."

Hann bætir við að nauðsynlegt sé að vinna bug á atvinnuleysinu með öllum tiltækum ráðum án þess að fara út í stóriðjuframkvæmdir. 

„Stóriðjan skapar ekki þá vinnu sem ég sé að við getum skapað í matvælaframleiðslu og sjávarútvegi. Frumkvöðlar sem og aðrir. Fyrir hvert eitt starf í álbræðslu tel ég að sé hægt að skapa tíu tækifæri í öðrum greinum. Ég veit það að það er fullt af atvinnu skapandi hugmyndum til, að minnsta kosti í mínu kjördæmi, Suðurlandi. Það stendur og fellur fyrst og fremst á því að það fæst ekki þolinmótt fjármagn á heiðarlegum vöxtum. Þetta er okkar verkefni og á að vera okkar aðalverkefni. Við eigum ekki að vera karpa um aðild eða ekki aðild. Því það leysir ekki vanda okkar," segir Atli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert