Engar breytingar í RN

Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

Samtals strikuðu 1.443 kjósendur yfir nafn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur eða breyttu röð hennar á framboðslista í kosningunum á laugardag eða 12,47% kjósenda flokksins. Steinunn Valdís skipaði fjórða sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Næst flestar útstrikanir fengu Helgi Hjörvar, sem skipaði annað sætið á lista Samfylkingarinnar í kjördæminu og Mörður Árnason, sem skipaði fimmta sætið hjá Samfylkingunni í kjördæminu.

300 manns strikuðu yfir nafn Þráins Bertelssonar, oddvita Borgarahreyfingarinnar í kjördæminu en það telst hlutfallslega mikið miðað við atkvæðamagn flokksins í kjördæminu.

403 strikuðu yfir nafn Sigurðar Kára Kristjánssonar sem skipaði þriðja sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Sigurður Kári náði ekki kjöri en Sjálfstæðisflokkurinn fékk tvo menn kjörna í kjördæminu.

Útstrikanirnar hafa engin áhrif á skipan framboðslista að sögn Erlu S. Árnadóttur, formanns yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður.

Útstrikanir eða breytt röð í RN:

  • Steinunn Valdís Óskarsdóttir: Samfylking 4. sæti - 1.443 (12,47%)
  • Helgi Hjörvar: Samfylking 2. sæti - 657 (5,68%)
  • Mörður Árnason: Samfylking 5. sæti - 656 (5,67%)
  • Sigurður Kári Kristjánsson: Sjálfstæðisflokkur 3. sæti - 403 (5,36%)
  • Þráinn Bertelsson: Borgarahreyfing 1. sæti - 300 8,9%)
  • Ásta Möller: Sjálfstæðisflokkur 4. sæti - 296 (3,94%)
  • Álfheiður Ingadóttir: Vinstri grænir 3. sæti - 296 (3,51%)
  • Árni Þór Sigurðsson: Vinstri grænir 2. sæti - 244 (2,89%)
  • Pétur H. Blöndal: Sjálfstæðisflokkur 2. sæti - 230 (3,06%)
  • Illugi Gunnarsson: Sjálfstæðisflokkur 1. sæti - 212 (2,82%)
  • Valgerður Bjarnadóttir: Samfylking 3. sæti - 137 (1,18%)
  • Sigríður Arnardóttir: Samfylking 7. sæti - 136 (1,17%)

Á lista yfir þá 12 frambjóðendur sem flestir strikuðu yfir eða breyttu röð á, eru 5 frá Samfylkingu, 4 frá Sjálfstæðisflokki, 2 frá Vinstri grænum og einn frá Borgarahreyfingu.

Sárafáir strikuðu yfir eða breyttu röð efstu frambjóðenda Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk 14 útstrikanir eða breytingar, Ásta Rut Jónasdóttir 21 og Þórir Ingþórsson 15.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar leiddi flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún fékk 39 útstrikanir.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra sem leiddi lista VG í kjördæminu, fékk 49 útstrikanir.

Upplýsingar um útstrikanir í Reykjavíkurkjördæmi suður fást ekki fyrr en á morgun. Þar ráða bæði fjöldi útstrikana og vandkvæði með tölvukerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert