Villur voru í útstrikunartölum

Landskjörstjórn hefur sent frá sér skýrslur um úrslit þingkosninganna sl. laugardag og útstrikanir. Fram kemur, að vegna innsláttarvillna birtust rangar tölur frá nokkrum yfirkjörstjórnum um útstrikanir á nöfnum frambjóðenda en villurnar hafa þó ekki nein áhrif á niðurstöður um röð frambjóðenda.

Fram kemur í tilkynningu fá landskjörstjórn, að talning á atkvæðum í sæti byggi á breytingum kjósenda auk þeirra atkvæða sem óbreytt eru. Þessi talning sé allviðamikið verk og hafi hingað til verið gerð handvirkt, en þó með aðstoð tölvu í Reykjavíkurkjördæmunum.

„Í ljósi þess að búist var við meiri breytingum á kjörseðlum nú en áður var brugðið á það ráð að láta gera tölvuforrit til að auðvelda þessa úrvinnslu. Nokkrir byrjunarörðugleikar urðu þar sem forritið sá ekki við sérstökum innsláttarvillum sem hent gátu. Af þeim sökum hefur á vegum landskjörstjórnar verið farið gaumgæfilega yfir gögnin frá yfirkjörstjórnum og fundist örfáar slíkar villur, sem voru síðan leiðréttar af hálfu yfirkjörstjórna. Þessar leiðréttingar hafa þó ekki nein áhrif á niðurstöður um röð frambjóðenda. Engu að síður ber að harma að upplýsingar haf birst í fjölmiðlum um einstakar útstrikunartölur sem eru af fyrgreindum ástæðum ekki ávallt í fullu samræmi við það sem hér er lagt fram," segir í tilkynningunni.

Ljóst er að í tveimur tilfellum höfðu útstrikanir áhrif á röðun frambjóðenda í sæti. Í Reykjavík suður, þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson færðist úr 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokks niður í 2. sætið en Ólöf Nordal færðist í 1. sætið. Og í Suðurkjördæmi þar sem Árni Johnsen færðist úr 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í það 3. en Unnur Brá Konráðsdóttir færðist upp í 2. sætið.

Landskjörstjórn kemur saman á mánudag til að staðfesta formlega úrslit kosninganna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert