Myndi fagna djarfri vaxtalækkun

Gylfi Magnússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á blaðamannafundi …
Gylfi Magnússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu mbl.is/Golli

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segist telja að svigrúm sé nú til þess, að nafnvextir lækki jafnhratt og verðbólgan. Sagðist hann á blaðamannafundi í dag myndu fagna djarfri ákvörðun Seðlabankans um vaxtalækkun en vaxtaákvörðunardagur er nú á fimmtudag.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist á blaðamannafundinum geta séð það fyrir sér, að stýrivextir ættu að geta lækkað hratt þannig að þeir verði komnir í 2-3% í lok ársins. 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði um Icesave viðræðurnar, að formlegar viðræður við bresk stjórnvöld hæfust um eða upp úr miðjum maí. Þá kom fram að ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun, að senda Seðlabanka Íslands tillögur umboðsmanns neytenda um neyðarlög vegna húsnæðislána til umsagnar.

Fjallað var á ríkisstjórnarfundinum um stöðu heimilanna og skuldara en  nú liggja fyrir viðbótar upplýsingar um skuldastöðu heimila. Fram kom í máli ráðherranna, að á grundvelli þessara upplýsinga verði hægt að taka ákvörðun um hvort grípa þurfi til frekari aðgerða til að koma til móts við skuldug heimili. 

Ráðherrarnir viku sér undan að tjá sig um þá frétt Morgunblaðsins í morgun, að Alþingi verði falið að ná niðurstöðu um hugsanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sögðust ráðherrarnir ætla að bíða með að tjá sig um málið þar til stjórnarmyndun sé lokið. Þeir ítrekuðu, að þeir væru væru mjög bjartsýnir um að henni ljúki um helgina.

Viðræðum Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs var haldið áfram í morgun og eftir hádegið ætla forsvarsmenn flokkanna tveggja að hitta fulltrúa launþegasamtaka, atvinnurekenda, bænda og sveitarfélaga til að fara yfir nauðsynlegar aðgerðir á næstunni og reyna að ná samkomulagi um stöðugleikasáttmála. 

Jóhanna sagði, að gríðarlegt verkefni væri framundan í ríkisfjármálum og hún vildi heyra skoðanir þessara aðila um hvernig best væri að fást við það.

Á ríkisstjórnarfundinum í dag voru lagðar fram nýjar upplýsingar um vinnumarkaðinn. Svo virðist, sem vöxtur á atvinnuleysisskráningu hafi  stöðvast og þar sé komið á ákveðið jafnvægi  milli nýskráninga og þeirra sem fá vinnu.

Formenn stjórnarflokkanna sögðust bjartsýnir á að atvinnuleysið muni ekki fara yfir 10% múrinn. Þó geri menn ráð fyrir að atvinnuleysið fari yfir 9% í maí og júní en þá fari að draga út því á ný. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert