Merkileg aðferð að treysta á stjórnarandstöðuna

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn

Forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, einkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, finnst lítið til nýs stjórnarsáttmála koma. Formaður þinghóps Borgarhreyfingarinnar telur aðgerðir fyrir heimilin í landinu ekki nógu róttækar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, nefndi fyrst Evrópusambandsmálið: „Þetta er helsta deiluefnið, flokkarnir hafa margítrekað að þeir muni leysa það sín í milli en svo kemur í ljós að þeir ætla að treysta því að stjórnarandstaðan leysi það. Þetta hlýtur að vera einsdæmi."

Formanni Framsóknarflokksins líst heldur ekki vel á aðgerðir varðandi stöðu atvinnulífsins og heimilanna: Engar nýjar lausnir, heldur eigi að útskýra þær sem þegar eru komnar fram. „Ég held ekki að vandamálið sé að fólk þekki ekki það sem þegar er í boði heldur að það dugi ekki til."

Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, kom ekki margt á óvart í sáttmálanum en hann saknar þess að ekki séu gefnar skýrari vísbendingar um það með hvaða hætti eigi að taka á ríkisfjármálum. Allt sé mjög almennt orðað. Og í Evrópusambandsmálinu sé engin niðurstaða. Í ljós eigi eftir að koma hvernig þingsályktunartillaga um það mál muni líta út „en fyrir mér er enn óljóst hvernig Vinstri grænir ætla að taka á málinu. Það virðist taktík þessarar ríkisstjórnar að treysta á stjórnarandstöðuna; það er merkileg aðferðafræði," sagði Bjarni Benediktsson.

Birgitta Jónsdóttir, formaður þinghóps Borgarahreyfingarinnar, telur fyrirhugaðar aðgerðir fyrir heimilin í landinu ekki nógu róttækar; þær virðist plástur á svöðusár. Mikilvægt sé að allir vinni saman að málefnum sem samstaða sé um. „Það er rosalega mikilvægt að þjóðin finni einhverja von og hana finnur enginn í argaþrasi."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn
Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert