Fréttaskýring: Boða róttæka uppstokkun ráðuneyta

Ráðherrar stilla sér upp fyrir myndatöku framan við Bessastaði í …
Ráðherrar stilla sér upp fyrir myndatöku framan við Bessastaði í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Töluverðar breytingar verða gerðar á stjórnarráðinu á næstu misserum í annað sinn á stuttum tíma. Ný ríkisstjórn ætlar strax að sameina ýmis verkefni í efnahagsmálum í nýju efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Nýtt atvinnuráðuneyti verði til fyrir mitt kjörtímabilið og ráðuneytum fækkað úr 12 í 9 á kjörtímabilinu.

Fyrir lok kjörtímabilsins er gert ráð fyrir því að lögfest verði sameining samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og mannréttinda- og dómsmálaráðuneytis í nýju innanríkisráðuneyti.

Uppstokkanir, sameining og fækkun ráðuneyta eru fátíðar í stjórnkerfinu. Einu strúktúr-breytingarnar sem gerðar hafa verið á síðustu 40 árum, eða frá því lögin um Stjórnarráð Íslands voru sett, eru annars vegar stofnun umhverfisráðuneytisins árið 1990 og umtalsverðar breytingar sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar stóð fyrir 2007.

Þá voru stórir málaflokka fluttir milli ráðuneyta og ráðuneyti landbúnaðar- og sjávarútvegs voru sameinuð í eitt í ársbyrjun 2008. Einnig var gerð sú breyting að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin voru ekki lengur á hendi eins og sama ráðherrans.

Reglulega hafa átt sér stað miklar umræður um hvort skynsamlegt sé að sameina atvinnuvegaráðuneytin. „Það mæla töluvert sterk fagleg rök með því að sameina þessi ráðuneyti,“ sagði Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um áformin um atvinnuvegaráðuneyti.

„Þau glíma við mjög hliðstæð viðfangsefni og það hefur mörgum þótt loða við sérstaklega landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið að þau væru veik gagnvart sínum atvinnugreinum og væru kannski of nátengd þeim.

Sameinað ráðuneytið ætti að hafa burði til að vera faglega sterkara og með meiri möguleika á sérhæfingu og sérþekkingu, en þetta er líka pólitísk spurning,“ bendir hann á. Annars vegar hafi ásóknin í ráðherrastóla alltaf verið sterk og unnið gegn sameiningu ráðuneyta hér á landi. Hins vegar snýst þetta um aðgang viðkomandi atvinnugreinar eða hópa, sem störf ráðuneytisins snerta, að ráðuneyti. Hópar sem hafa haft aðgang að sérstöku ráðuneyti sem sinnir hagsmunum þeirra hafa að sumu leyti betri aðgang að stjórnkerfinu. Þeir séu því ekki ánægðir með að sjá á bak þeim aðgangi.

Þegar boðuð var sameining landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytanna árið 2007 var gagnrýnt að ríkisstjórnin tæki ekki stærra skref og setti iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin einnig undir þann sama hatt í einu atvinnuvegaráðuneyti. Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þótti ekki hyggilegt að búa til stórt atvinnuvegaráðuneyti. „Slíkt ráðuneyti væri einfaldlega of risavaxið,“ sagði hann á þeim tíma.

Í samanburði við önnur lönd eru ráðuneyti á Íslandi fremur fá. Lengst af voru ráðuneyti formlega 14 talsins og Hagstofan talin sérstakt ráðuneyti. Síðar fækkaði þeim í 12 og nú er stefnt að fækkun þeirra í níu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert