VG útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokk

Sóley Tómasdóttir í förðun fyrir útsendingu í sjónvarpssal.
Sóley Tómasdóttir í förðun fyrir útsendingu í sjónvarpssal. Eggert Jóhannesson

Í máli Sóleyjar Tómasdóttur í umræðuþætti Sjónvarpsins með oddvitum flokkanna í Reykjavík í kvöld kom fram að hún útilokar meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum.

Sóley sagði að það væri grundvallarmunur á hugmyndafræði Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna og hún teldi að sá munur væri gersamlega ósamræmanlegur. „Ég veit ekki hvað þyrfti að gerast til að ég geti leitt Sjálfstæðisflokkinn áfram til valda," sagði Sóley.

Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar, hefur áður sagt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn langsótt, eins og mbl.is hefur greint frá. Hann ítrekaði það í þættinum í kvöld og sagði að á kjörtímabilinu hefðu kristallast ákveðin ágreiningsmál við Sjálfstæðisflokkinn, sem væru grundvallarmál kosningabaráttunnar nú.

„Það eru örfáar vikur liðnar frá því okkur greindi á við meirihlutann í borgarstjórn um hvernig ætti að ráðstafa fjármunum til næstu þriggja ára. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skáru niður framkvæmdir um 70% og viðhald um 50% þótt við vitum að þetta eru skjótvirkustu úrræðin gegn atvinnuleysinu," sagði Dagur, sem viðurkenndi að staðan, sem kemur upp eftir kosningarnar gæti orðið mjög flókin.

„Þetta hefur verið sérstök kosningabarátta og að miklu leyti mjög skemmtileg en ég get ekki sagt að ég sé miklu nær um fyrir hvað Jón Gnarr og félagar hans standa í mörgum málum." 

Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, sagði að flokkurinn væri þverpólitískur. „Við erum tilbúin að vinna með öllum, sama í hvaða flokki þeir eru; við förum ekki í flokksgreiningarálit," sagði Jón. „Við erum tilbúnir að vinna með öllum sem hafa eitthvað til málanna að leggja og eru tilbúin til að leggja hönd á plóginn." 

Jón sagðist aðspurður líklega myndi gera kröfu um borgarstjórastól ef hann færi í meirihlutasamstarf við aðra flokka. 

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokks sagðist ekki telja rétt að kjörnir fulltrúar borgarbúa útilokuðu samstarf við aðra.  Borgarfulltrúar væru kosnir af fólkinu í borginni til að sinna verkefnum fyrir borgarbúa, reka borgina og stýra málum.

„Við höfum ekkert leyfi, finnst mér, til að útiloka samstarf við ákveðna flokka og ákveðið fólk. Það er fulltrúar ákveðinna flokka og þar með fulltrúar fólksins í borginni. Eigum við þá að segja: Ég ætla ekki að vinna fyrir fólkið sem kaus Sóley og kaus Dag?" sagði Hanna Birna.  „Mig langar ekkert meira en að vinna vel fyrir borgarbúa og ég er reiðubúin til að gera það með hverjum þeim sem er á sömu vegferð og ég." 

Einar Skúlason, oddviti Framsóknarflokksins, sagði að samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn hefði gengið vel á síðari hluta kjörtímabilsins en Framsóknarflokkurinn hefði hins vegar ekki góða reynslu af samstarfi við Sjálfstæðisflokk. „Verstu tímar Framsóknar hafa verið í samstarfi við Sjálfstæðisflokk og þá er ég að vísa til þeirra tíma sem Davíð Oddsson var forsætisráðherra og menn voru allt of undanlátssamir og sýndu ekki nægilegan styrk," sagði Einar. Hann sagði, að flokkurinn væri nú á fullu að reyna að breyta og bæta og laga til. 

Einar sagði að komist hann í borgarstjórn væri hann tilbúinn til að skoða samstarf við hvern sem er en vildi fyrst sjá hver vilji kjósenda væri.

Ólafur F. Magnússon, oddviti H-listans, sagðist ekki sækjast eftir borgarstjóraembætti á næsta kjörtímabili. Hann sagðist vera tilbúinn til að vinna með öllum nema Framsóknarflokknum en sá flokkur væri aðalmeinið í borginni.

Baldvin Jónsson, fulltrúi Reykjavíkurframboðsins, sagði að flokkurinn væri að sjálfsögðu tilbúinn til að vinna með öllum, sem settu hagsmuni borgarbúa en ekki flokkanna í fyrsta sæti. Helga Þórðardóttir, oddviti Frjálslynda flokksins, sagðist vilja þjóna borgarbúum og hugsa helst um afkomu borgaranna. Hún væri tilbúin til að vinna með þeim sem vildu verja grunnþjónustuna, sama hvar í flokki þeir eru. 
Oddvitar framboðanna í Reykjavík í sjónvarpssal í kvöld.
Oddvitar framboðanna í Reykjavík í sjónvarpssal í kvöld. Eggert Jóhannesson
Oddvitar framboðanna í Reykjavík í sjónvarpssal.
Oddvitar framboðanna í Reykjavík í sjónvarpssal. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert