Vill hvítflibbafangelsi

Jón Gnarr
Jón Gnarr mbl.is/Rax

Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, vill fjármagna kosningaloforð sín með því að endurskoða styrkveitingar Reykjavíkurborgar. Þá sagðist hann vilja nýta húsnæði borgarinnar á Arnarholti og Kjalarnesi undir alþjóðlega hvítflibbakrimma enda ljóst að slíkum föngum muni fjölga mikið á næstu árum bæði hér og erlendis. Þetta kom fram í umræðum oddvita flokkanna í Reykjavík sem fram fóru á Stöð 2 nú undir kvöld.

„Þetta eru menn sem eru ekki beinlínis hættulegir nema þeir komist í bókhald eða nettengingu. Þetta er stórt vandamál bæði í Bandaríkjunum og Evrópu,“ sagði Jón Gnarr. Tók hann fram að slíkt fangelsi myndi ekki aðeins skapa störf fyrir fangaverði heldur einnig fjöldi beinna og óbeinna starfa. Nefndi hann í því samhengi sérfræðimenntuð störf sálfræðinga, lækna, félagsfræðinga og afbrotafræðinga.  

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks og borgarstjóri, segir ljóst að gjaldskrár þurfi á einhverjum tímapunkti á næstu fjórum árum að hækka í samræmi við hækkandi verðlag í samfélaginu.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, vill flýta framkvæmdum og auka viðhaldsverkefni á vegum borgarinnar. Hann vill einnig fjölga sumarstörfum fyrir ungt fólk. Í dag eru sjö þúsund Reykvíkingar atvinnulausir. Að mati Dags þarf að skapa a.m.k. fimm þúsund ný störf á næsta ári. Tók hann fram að borgin ein gæti ekki gert það heldur þyrfti að koma til gott samstarf við atvinnulífið, verkalýðshreyfinguna og ríkið.

Borgin þarf að axla ábyrgð sem atvinnurekandi

Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri græna, sagði ljóst að borgin þyrfti að axla ábyrgð sem atvinnurekandi. Benti hún að hjá borginni starfi nú átta þúsund manns og mikill fengur væri í því að leita til þeirra eftir hugmyndum. Jafnframt sé ljóst að fara þurfi í aukin viðhaldsverkefni og í því samhengi ætti að bæta aðgengismál fatlaðra.

Einar Skúlason, oddviti Framsóknarflokks, lagði áherslu á aukið íbúalýðræði. Að hans mati ættu 5% borgarbúa að nægja til þess að setja mál á dagskrá. Lagði hann áherslu á að efla borgina sem ferðamannastað, ekki síst fyrir fjölskyldur.

Að mati Dags þurfa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að vinna mun betur saman en verið hefur.

Frambjóðendur voru spurðir um afstöðu þeirra til flugvallarins í Vatnsmýrinni og töldu bæði Dagur og Sóley að flugvallarmálið væri ekki kosningamál í komandi kosningum enda mörg önnur brýnni samfélagsmál. Bentu þau bæði á hann myndi með tímanum fara. Einar lagði áherslu á að flugvöllurinn færi ekki úr Vatnsmýrinni fyrr en búið er að finna jafngóðan eða betri stað. 

Hugmyndin um Disneyland var grín

Jón Gnarr viðurkenndi að hugmynd Besta flokksins þess efnis að opna Disneygarð í Vatnsmýrinni væri aðeins grín. Spurður hvað fleira í stefnuskrá flokksins sé grín vék Jón Gnarr sér undan því að svara og tók fram að kjósendur væru sjálfir vel í stakk búnir til þess að greina á milli þess hvað væri grín og hvað ekki. Sagðist hann trúa því að hann yrði mjög góður í stóli borgarstjóra. 

Hanna Birna var innt eftir því hvort hún teldi að hún sæti enn sem borgarstjóri eftir helgi sagðist hún vonast til þess og benti á þau góðu mál sem meirihlutinn hefði unnið að í borginni á síðustu árum. Viðurkenndi hún að það væri bæði persónuleg og pólitísk vonbrigði að fylgi Sjálfstæðisflokks væri ekki meira á núverandi tímapunkti. Ítrekaði hún að hún treysti sér til þess að vinna með fulltrúum allra flokkanna sem bjóða fram í borginni. Minnti hún á ákall sitt um þjóðstjórn í borginni.

Aðspurður sagðist Dagur tilbúinn í samstarf, en það yrði að vera byggt á mjög skýrum markmiðum. Lagði hann í því samhengi áherslu á atvinnumálin.

Sjálfstæðisflokkurinn enn ekki axlað ábyrgð

Sóley var spurð hvort hún væri til í samstarf við Besta flokkinn fái hann sjö borgarfulltrúa og Vinstri grænir einn sagðist hún ekki útiloka neitt. Hún ítrekaði hins vegar að samstarfið snérist um málefnin. Notaði hún tækifærið til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði enn ekki axlað ábyrgð á sínum þætti í efnahagshruninu og því skipbroti sem hugmyndafræði flokksins hefði leitt til í samfélaginu. Sökum þessa væri útilokað að vinstri grænir gætu starfað með sjálfstæðismönnum í meirihluta. 

Hanna Birna var innt viðbragða við þessu og ítrekaði hún að hún treysti sér fyllilega til þess að vinna með Sóleyju og rifjaði upp að gott samstarf hefði verið á síðustu tveimur árum í borginni þvert á flokka. 

Jón Gnarr segist ekki útiloka samstarf við neinn sem er tilbúinn til þess að vinna að góðum málefnum. Mótmælti hann þeim orðum Hönnu Birnu að Reykvíkingum líði vel og sagði ljóst að borgarbúar séu margir hræddir og áhyggjufullir út af framtíðinni. 

Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson mbl.is/Golli
Einar Skúlason
Einar Skúlason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert