Gleymdi persónuskilríkjum

Jón Gnarr ræðir við starfsmenn í Ráðhúsinu á meðan beðið …
Jón Gnarr ræðir við starfsmenn í Ráðhúsinu á meðan beðið var eftir veskinu.

Jón Gnarr, leiðtogi Besta flokksins í Reykjavík, reyndist ekki vera með persónuskilríki þegar hann kom á kjörstað í Ráðhúsi Reykjavíkur um klukkan 11 í dag. Hann hafði skipt um föt á kosningaskrifstofu flokksins áður en hann kom á kjörstað og gleymt skilríkjunum.

Nú voru góð ráð dýr en Jón bað kosningastjóra sinn, sem var með honum í för, að skreppa út á skrifstofuna, sem er í Aðalstræti, og ná í veskið. Þegar hún var nýfarin bar þar að fulltrúa kjörstjórnar sem sagðist geta vottað, að Jón væri sá sem hann segðist vera. Jón fékk því að kjósa.

Hjá kjörstjórn í Reykjavík fengust þær upplýsingar að það þyrfti alltaf reglulega að grípa til slíkra ráðstafana. Í þeim tilvikum þarf sá sem vottar að sá sem vill kjósa sé sá sem hann er að fylla út sérstakt eyðublað og sjálfur að framvísa persónuskilríkjum. Samkvæmt upplýsingum blaðamanns mbl.is er það oftast eldri borgarar á níræðis- og tíræðisaldri sem þurfa að láta votta hverjir þeir eru þar sem þeir eigi stundum engin persónuskilríki, t.d. hvorki vegabréf eða debetkort. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert