Fréttaskýring: „Samfylkingin er tapari þessara kosninga“

Miklar breytingar verða í stærstu sveitarfélögunum samkvæmt fyrstu tölum.
Miklar breytingar verða í stærstu sveitarfélögunum samkvæmt fyrstu tölum.

„Við erum að sjá mikið uppgjör við hrunið og rannsóknarskýrsluna en það sem kannski er athygliverðast er að það er verið að keyra á jarðýtu yfir Samfylkinguna. Samfylkingin er tapari þessara kosninga," segir Grétar Þór Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri í samtali við Kosningavef mbl.is.

Miðað við fyrstu tölur er Samfylkingin með 16 menn kjörna í fimm stærstu sveitarfélögum landsins, Sjálfstæðisflokkurinn með 22 menn, Vinstri græn þrjá og Framsókn þrjá.

Samfylkingin tapar manni í Kópavogi en heldur sínum fjórum í Reykjavík, þótt raunar sé fjórði maðurinn síðastur inn.

Í aðdraganda þessara kosninga hafa óvenju fáar skoðanakannanir verið gerðar, eða einungis í tíu sveitarfélögum. Þær kannanir gáfu þó vísbendingu um að uppgjör við flokkakerfið væri í uppsiglingu í kosningunum.

Kannanir virðast ætla að ganga eftir 

Besta flokknum var spáð kosningasigri í Reykjavík og miðað við fyrstu tölur er hann stærsti flokkurinn í Reykjavík með sex menn kjörna. Á Akureyri höfðu kannanir bent til þess að L – listinn fengi meirihluta og miðað við fyrstu tölur hlýtur flokkurinn raunar enn betri kosningu en kannanir gerðu ráð fyrir.

Niðurstöður kannana virðast því ætla að ganga eftir að miklu leyti og ný framboð sækja á.

Að mati Grétars Þórs virðist sem kjósendur Samfylkingar séu fremur tilbúnir að veita sínum flokki ráðningu. Ég túlka þetta þannig að þetta sé sambland af efnahagshruninu og því hvernig flokkarnir hafa brugðist við rannsóknarskýrslunni með kattarþvottartilhneigingum. Það virðist ekki þolað eins vel af kjósendum Samfylkingarinnar og kjósendum Sjálfstæðisflokksins," segir Grétar Þór.

VG tapar miklu þrátt fyrir að bera ekki ábyrgð á  hruninu 

Bæði Vinstri græn og Framsókn tapa sínum manni í Reykjavík en fá einn hvor í Kópavogi. Frjálslyndir ná hvorki á blað í Reykjavík né Kópavogi.  

Vinstri græn ná einungis þremur mönnum inn í fimm stærstu sveitarfélögunum. Að mati Grétars Þórs hljóta þær tölur að vera áfall fyrir Vinstri græn, einkum ef litið er til þeirrar undiröldu óánægju og vantrausts með hrunflokkana svonefndu sem fram kemur í kosningunum. „Vinstri græn ná engu flugi þrátt fyrir að bera enga ábyrgð á hruninu. Það hlýtur að vera áfall."

Framsókn að missa fótanna - skilaboð til flokksforystunnar

Framsóknarflokkurinn nær einungis þremur bæjarfulltrúum í fimm stærstu sveitarfélögum landsins. „Það er greinilega mikil naflaskoðun framundan í Framsóknarflokknum, líka á landsvísu. Þetta eru mjög skýr skilaboð til flokksforystunnar," segir Grétar Þór. 

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur.
Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert