Sveitarstjórnakosningar hafnar

Þórdís Guðmundsóttir var fyrst á kjörstað á Eskifirði.
Þórdís Guðmundsóttir var fyrst á kjörstað á Eskifirði. mbl.is/Helgi Garðarsson

Kjörstaðir voru opnaðir í flestum sveitarfélögum landsins klukkan 9 og víðast hvar lýkur kjörfundi klukkan 22 í kvöld. Í minni sveitarfélögum kann kjörfundi þó að ljúka fyrr. Alls er kosið í 77 sveitarfélögum og eru 2846 einstaklingar á framboðslistum eða um 1,2% kjörgengra einstaklinga í landinu.

Sveitarfélögum hefur fækkað um tvö frá því síðast var kosið til sveitarstjórna árið 2006, úr 79 í 77. Að loknum kosningunum í vor tekur gildi sameining Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar og verða þá sveitarfélög í landinu 76 talsins.

Meðalaldur frambjóðenda í kosningunum nú er 44,8 ár samanborið við 43 ár í kosningunum 2006 og 2002. Elsti fulltrúi á framboðslista er 92 ára gamall, fæddur árið 1918, og yngstu frambjóðendurnir eru átján ára gamlir, fæddir árið 1992. Þeir eru sex talsins.

Á kjörskrárstofnum, sem hafa verið unnir vegna kosninganna í vor eru 225.930 kjósendur, 113.663 konur og 112.267 karlar. Meðal þeirra eru 2070 einstaklingar með lögheimili annars staðar á Norðurlöndum, aðallega námsmenn. Ríkisborgarar annarra ríkja á Norðurlöndum búsettir hér og með kosningarrétt eru 1050 og borgarar annarra ríkja 3525.
 
Kjósendur á kjörskrárstofni eru 9767 fleiri nú en á kjörskrá í síðustu sveitarstjórnarkosningum eða sem svarar 4,5%. Þeir kjósendur sem nú fá að kjósa í fyrsta sinn til sveitarstjórnar sökum aldurs eru 18.772. Það eru 8,3% af heildarkjósendatölunni.

Upplýsingar um kjörstaði

Kjörkjössum ekið inn í Ráðhús Reykjavíkur í gærkvöldi en þar …
Kjörkjössum ekið inn í Ráðhús Reykjavíkur í gærkvöldi en þar munu kjósendur í miðborginni greiða atkvæði í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert