Besti flokkur ræðir við Samfylkingu

Jón Gnarr á kosningahátíð Besta flokksins í nótt.
Jón Gnarr á kosningahátíð Besta flokksins í nótt. mbl.is/hag

Jón Gnarr, leiðtogi Besta flokksins, upplýsti í fréttum Sjónvarpsins, að hann og félagar hans hefðu í dag rætt við fulltrúa Samfylkingarinnar. Sagði Jón að hann gerði kröfu um að verða borgarstjóri og teldi að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, féllist á það.

Jón sagði, að andinn í viðræðunum hefði verið mjög góður. „Dagur er reyndar ekki búinn að horfa á Wire (bandarískur sjónvarpsþáttur) og sagðist hafa gert það viljandi," sagði Jón og bætti við að hann mæltist til þess að Dagur léti verða af því.

„Við vorum að fullvissa þau um að við erum að gera þetta af heilum hug og þetta er ekki einn stór þjóðfélagslegur brandari," sagði Jón. Hann sagði að á fundinum hefði verið reynt að eyða paranoju. „Það hafa margir verið óöruggir gagnvart mér og ég var að gera mitt besta til að slá á það," sagði Jón og bætti aðspurður við, að honum hefði tekist að róa Dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert