Grímur yfirgefur VG

Grímur Atlason.
Grímur Atlason.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, sagði sig úr Vinstri grænum um helgina ef marka má vef hans. Grímur var áður sveitarstjóri í Dalabyggð en lét af því embætti um mánaðamótin. Grímur lætur Skagfirðinga finna til tevatnsins í pistli sem hann ritar á vef sínum.

„Skagfirðingar ályktuðu eftir hrun að opinber störf í Skagafirði væru dýrmætari en annar staðar á landinu. Gamli Hóla rektorinn tók undir þetta í kosningabaráttunni fyrir síðustu Alþingiskosningar þegar hann sagði að skera ætti niður á öllum stöðum nema í NV-kjördæmi. Barátta hans á móti umbótum  í stjórnsýslunni eru síðan fullkomin birtingarmynd skagfirskunnar.

Framsóknarflokkurinn galt afhroð á SV-horninu hvar 2/3 íbúa landsins búa í kosningunum á laugardaginn. Flokkurinn hlaut 4% atkvæða sem verður að teljast verulega vondur árangur. Það er helmingur þess fylgis sem áður var verst. Guðmundur Steingrímsson þingmaður flokksins hafði af þessu miklar áhyggjur og gagnrýndi forystu flokksins og þá aðallega formanninn. Skipti þá engum togum að Skagfirðingar risu upp og báðu hann ýmist að segja af sér eða að ganga aftur í Samfylkinguna.

Það virðist vera nokkur lenska hjá framsóknarmönnum í Skagafirði að nota skammaryrðið „Samfylkingin“ um þá sem eru þeim ekki þóknanlegir. Þetta á einnig við um framsóknararminn í VG. Ég á ótal fjölpósta frá skagfirsku framsóknarklíkunni í VG hvar þeir óska þess heitast að ég fari aftur í Samfylkinguna – enda sé ég óalandi og óferjandi að þeirra mati. Daður mitt við ESB ku hafa kostað flokkinn hreinan meirihluta í NV-kjördæmi – eins og kosningastjóri flokksins  benti á í einu af þessu fjölbréfum. Í framhaldi af þessu stórtapi flokksins í NV-kjördæmi stóð einn Skagafjarðarbersinn upp á flokksráðsfundi sl. haust og bað mig um að yfirgefa flokkinn og fara aftur heim í Samfylkinguna. 

Skagfirðingar í rauðgrænum dulbúningi geta loks tekið gleði sína á ný. Ég yfirgaf þeirra réttháa skip um helgina. Ég finn hins vegar til með skynsömu fólki sem vill vel en þarf að sitja undir þessu bulli dag eftir dag," skrifar Grímur á vef sinn á Eyjunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert