„Mjakast samkvæmt áætlun“

Dagur B. Eggertsson og Jón Gnarr ræðast við um meirihlutasamstarf …
Dagur B. Eggertsson og Jón Gnarr ræðast við um meirihlutasamstarf í borginni.

Meirihlutaviðræðurnar í Reykjavík, á milli Besta flokksins og Samfylkingarinnar, mjakast samkvæmt áætlun, að sögn Gauks Úlfarssonar. Gaukur var frambjóðandi Besta flokksins í kosningunum og hefur verið framarlega í utanumhaldi viðræðnanna.

Í kvöld hafa allir verðandi borgarfulltrúar beggja flokka setið saman á fundi, ásamt helstu pólitísku ráðgjöfum sínum og farið vítt og breitt yfir sviðið, eftir viðræður síðustu daga.

„Við erum að teikna upp svona allsherjarplan. Það lítur mjög vel út," segir Gaukur. Hann segir engin stór ágreiningsmál hafa komið upp, en vill ekki tala um einstök málefni fyrr en búið verður að handsala samstarfið. „Þá verðum við að vera búin að fara yfir öll mál,“ segir Gaukur.

Í Kópavogi hafa viðræður Samfylkingarinnar, VG, Y-lista Kópavogsbúa og Næstbesta flokksins, um myndun meirihluta gengið mjög vel, að sögn Ólafs Þórs Gunnarssonar, oddvita VG. ,,Ég á ekki von á að neitt komi í veg fyrir að það verði alveg frágengið öðru hvoru megin við helgina," segir hann.

Í Hafnarfirði er að skríða saman málefnasamningur milli Vinstri grænna, með Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur í farabroddi og Samfylkingarinnar. Guðrún og Guðmundur Rúnar Árnason, oddviti Samfylkingarinnar hafa fundað í dag.

Guðrún reiknar með að málefnapakkanum verði lokað á morgun og helgin svo notuð í fínpússningu og frágang, auk þess að gera út um embætti eins og bæjarstjórastólinn. Hún segir það ekki frágengið hver verði bæjarstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert