Þrír flokkar í meirihluta á Álftanesi

Frá Álftanesi.
Frá Álftanesi.

Fjórir bæjarfulltrúar D-lista, sem fara með meirihluta í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Álftaness, hafa ásamt einum bæjarfulltrúa B-lista og einum bæjarfulltrúa L-lista undirritað yfirlýsingu um samvinnu í bæjarstjórn.

Samkvæmt þessu er Álftaneslistinn einn í minnihluta í bæjarstjórninni.

Í tilkynningu frá flokkunum þremur segir, að með aukinni samvinnu í bæjarstjórn séu þeir sammála um að hagur og velferð íbúanna verði tryggður á sem bestan hátt, meðal annars með aðgerðum sem stuðli að því að álögur á íbúa  lækki sem allra fyrst.

Í upphafi kjörtímabilsins eru eftirfarandi atriði sett í forgang

  1. Samningur við Pálma Þór Másson um starf bæjarstjóra verður framlengdur til ársloka
  2. Í ljósi niðurstöðu skoðanakönnunar meðal íbúa Álftaness þann 6. mars 2010 hefur verið ákveðið að á fyrsta fundi bæjarstjórnar verði samþykkt að óska eftir formlegum sameiningarviðræðum við Garðabæ í frjálsri sameiningu.
  3. Strax verða skipaðir tveir vinnuhópar sem taki til starfa nú þegar.
    a) Vinnuhópur um endurskoðun á samþykktum um stjórn og fundarsköp.
    b) Vinnuhópur um undirbúning fyrir sameiningarviðræður.
  4. Á fyrsta fundi bæjarstjórnar verði kjörið í embætti og nefndir af sameiginlegum lista þessara þriggja framboða. Einungis verður kjörið í fjórar fastanefndir til að byrja með auk kjörstjórnar, en kjöri í aðrar nefndir frestað og verkefnum þeirra deilt niður á bæjarráð og aðrar nefndir.
  5. Fyrir fund í bæjarráði og bæjarstjórn munu verða undirbúningsfundir þessara aðila með það að markmiði að auka samvinnu og gera bæjarráðs- og bæjarstjórnarfundi skilvirkari.
  6. Yfirlýsingu þessa skal endurskoða þegar fjárhaldsstjórn hefur lokið sinni vinnu er lýtur að fjárhag sveitarfélagsins.

Undir yfirlýsinguna skrifa: Snorri Finnlaugsson bæjarfulltrúi D-lista, Kristinn Guðlaugsson bæjarfulltrúi D-lista, Kjartan Örn Sigurðsson bæjarfulltrúi D-lista, Hjördís Jóna Gísladóttir bæjarfulltrúi D-lista, Einar Karl Birgisson bæjarfulltrúi B-lista og  Guðmundur G. Gunnarsson bæjarfulltrúi L-lista.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert