Árni Múli ráðinn

Árni Múli Jónasson.
Árni Múli Jónasson.

Meirihluti bæjarstjórnar Akraness staðfesti nú undir kvöld, að Árni Múli Jónasson verði næsti bæjarstjóri, eins og mbl.is sagði frá í dag. Segir í tilkynningu að samþykkt hafi verið samhljóða á fundi bæjarráðs að leggja til við bæjarstjórn Akraness að Árni Múli yrði ráðinn.

Alls sóttu 42 um starfið, þar á meðal Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri og alþingismaður, en þrír drógu umsókn sína til baka. 

Í tilkynningunni segir, að Capacent Ráðgjöf hafi haft umsjón með ráðningarferlinu. Umsóknir hafi verið metnar með tilliti til þeirra hæfniskrafna með fram komu í auglýsingu um starfið og ítarleg viðtöl  tekin við valinn hóp umsækjenda. Ráðgjafi Capacent ásamt bæjarráði Akraness hafi tekið framhaldsviðtöl við þá sem þóttu best uppfylla hæfniskröfur.   Þegar öllum viðtölum var lokið hittist bæjarráð að nýju og fór yfir niðurstöður viðræðnanna.  Hafi það verið samhljóða niðurstaða bæjarráðs að leggja til við bæjarstjórn að Árni Múli verði ráðinn í starfið.

Árni Múli er 51 árs gamall, lögfræðingur  að mennt, með meistarapróf í alþjóðlegum mannréttindalögum frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hann er kvæntur Arnheiði Helgadóttur sérkennara og eiga þau fjögur börn.  Þau hafa verið búsett á Akranesi síðan árið 2006.

Árni Múli hefur starfað sem fiskistofustjóri frá því í september 2009 en áður var hann m.a. lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og aðstoðarfiskistofustjóri þar til hann tók við starfi fiskistofustjóra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert