Á fimmta hundrað í framboði

Stjórnarskráin er ekki meitluð í stein og hún hefur tekið …
Stjórnarskráin er ekki meitluð í stein og hún hefur tekið ýmsum breytingum undanfarin ár þó að sumar hafi farið fremur lágt. mbl.is/Kristinn

Frestur til að skila inn framboði til stjórnlagaþings rann út kl. 12:00 á hádegi í dag, 18. október.  Að sögn Þórhalls Vilhjálmssonar ritara landskjörstjórnar eru frambjóðendur á bilinu 400-450 talsins. Gríðarlegt álag var á vefnum í morgun, enda skráðu yfir 300 frambjóðendur sig á síðustu metrunum.

„Það voru komin um 150 framboð á föstudaginn, en það eru komin að minnsta kosti 300 núna í dag og ég satt að segja hef bara ekki tölu á þeim lengur," segir Þórhallur. Til að tryggja að allir gætu skilað inn framboði sem vildu greip Landskjörstjórn til þess ráðs að heimila að framboðum yrði skilað með tölvupósti.  „Það hafa komi smá hnökrar í morgun en við höfum reynt að taka við þeim inn á annað pósthólf og ég veit ekki betur en að það hafi allt gengið." 

Þann 3. nóvember mun Landskjörstjórn birta endanlegan lista yfir frambjóðendur í stafrófsröð en á næstu dögum verður farið yfir framboðin og fólki gefinn kostur á að bæta úr ef upplýsingar vantar. Að sögn Þórhalls hafa þó fá álitamál komið upp það sem af er og virðast flestir hafa skilað inn framboðum og stuðningslistum á því formi sem til var ætlast. Í morgun höfðu 53 frambjóðendur skilað inn tilkynningum um heimasíður sínar, með upplýsingum um baráttumál. Lista yfir heimasíðurnar má finna á Facebook síðu stjórnlagaþings.

Á næstunni mun dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, samkvæmt lögum, útbúa kynningarefni um frambjóðendur sem verður dreift inn á öll heimili í landinu og birt á vefnum. Kappkostað verður við að hraða þessari kynningu nú þegar öll framboð liggja fyrir. Afriti af kjörseðlinum verður einnig  dreift til allra kjósenda í landinu ásamt nánari skýringum á því hvernig atkvæðagreiðslan fer fram. Leyfilegt er að fylla kynningarseðilinn út heima og hafa hann með sér á kjörklefa til viðmiðunar.  

Nokkrir þjóðþekktir einstaklingar eru í hópi frambjóðenda, má þar m.a. nefna Ingu Lind Karlsdóttur sjónvarpskonu, Jónas Kristjánsson ritstjóra, Silju Báru Ómarsdóttur aðjúknt við stjórnmálafræðiskor HÍ, Illuga Jökulsson rithöfund og Þorvald Gylfason hagfræðiprófessor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert