Þóra með 9 prósentustiga forskot

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þóra Arnórsdóttir hefur níu prósentustiga forskot á Ólaf Ragnar Grímsson fyrir forsetakjörið í lok maí, samkvæmt nýrri könnun. Afstaða til stjórnmálaflokka virðist ráða miklu um stuðning við forsetaframbjóðendur. Þetta kemur fram í könnun Capacent Gallup sem greint var frá í kvöldfréttum RÚV

Könnunin var netkönnun, gerð 26. apríl og þangað til í dag. Könnunin var því send svarendum áður en Andrea Ólafsdóttir tilkynnti framboð sitt hinn 1. maí.

Tæplega 1.400 manns voru í úrtaki Gallup, svarhlutfallið var um 60 prósent, þar af tóku 82 prósent afstöðu til frambjóðenda en 13 prósent hafa ekki gert upp hug sinn. Af þeim sem afstöðu tóku styðja 46,4% Þóru Arnórsdóttur en 37,2% styðja Ólaf Ragnar Grímsson. Munurinn á þeim eru um níu prósentustig. Ólafur Ragnar hefur sagt að hann muni ekki hefja kosningabaráttu sína fyrr en framboðsfrestur er runninn út, eftir þrjár vikur.

Rétt tæp 11% styðja Ara Trausta Guðmundsson. Aðrir frambjóðendur njóta umtalsvert minna fylgis. 3,1% styður Herdísi Þorgeirsdóttur, 1,3 prósent styðja Ástþór Magnússon, 0,8% Jón Lárusson og 0,3% Hannes Bjarnason.

Meira en helmingur stuðningsmanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins styður Ólaf Ragnar en um 30% þeirra styðja Þóru. 10% sjálfstæðismanna og 6% framsóknarmanna styðja Ara Trausta. 73% þeirra sem styðja Samfylkinguna og 69% þeirra sem styðja vinstri-græna styðja hins vegar Þóru. Hún nýtur líka mests stuðnings þeirra sem styðja aðra en fjórflokkana, segir í frétt RÚV um könnunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert