Er ekki að kaupa atkvæði

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson Eggert Jóhannesson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var spurður af Helgu Arnardóttur, fréttamanni Stöðvar 2, hvort hann væri að kaupa sér atkvæði útgerðarmanna með því að hafa lýst yfir vilja sínum til að vísa ráðstöfun sjávarútvegsauðlindar til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Spurning Helgu var skýr og skorinort en forsetinn var einfaldlega spurður: „Ertu að kaupa þér atkvæði útgerðarmanna?“

„Að kaupa mér atkvæði útgerðarmanna? Nei, að sjálfsögðu er ég ekki að kaupa mér atkvæði útgerðarmanna. Enda er ég ekki viss um að útgerðarmenn vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um málið,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Helga svaraði því næst að málið væri umdeilt og mikið í umræðunni að undanförnu. Því hafi hún velt þessu fyrir sér.

Ólafur Ragnar tók svo til máls og sagði: „Fyrirgefðu, ég er bara að lýsa grundvallarafstöðu minni á ráðstöfun stærstu auðlindar þjóðarinnar. Ef þjóðin vill fá lokaorð um það mál, sem hún hefur rétt á samkvæmt stjórnarskránni, þá bið ég þig bara að hugleiða: Er eitthvert annað mál stærra af þeim málum sem við fáumst við hér innanlands heldur en ráðstöfun á okkar stærstu og mikilvægustu auðlind?“

Auk Helgu stjórnar Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður Stöðvar 2, umræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert