Þóra: Hlutverkið stórt, beinu völdin lítil

Þóra Arnórsdóttir.
Þóra Arnórsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mín sýn er áreiðanlegra hefðbundnari en margra annarra meðframbjóðenda. Ég tel að stjórnarskráin sé skýr,“ segir Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi. „Allt í einu er farið að ræða um valdsvið forseta, það hefur ekki áður verið gert í forsetakosningum.“

Þetta sagði Þóra í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.

„Ég sé hlutverk forseta þannig að hann hafi takmörkuð pólitísk völd, en hlutverkið er stórt þó að beinu völdin séu ekki mikil. Forsetinn, sem er kjörinn beint af þjóðinni, er tákn um einingu ríkisins. Sá sem er kjörinn verður fyrst og fremst að vinna að því að sameina fólk og því tel ég að hann eigi að láta stjórnmálaflokkana um hina pólitísku umræðu,“ sagði Þóra.

Hún sagðist vilja færa embættið „fjær átakalínum“. „En það þýðir ekki að forsetinn eigi að ganga um tún á Bessastöðum. Það þýðir að hann eigi að vera virkur og leiða ýmsa ólíka aðila saman.“

Þóra sagðist telja að forseta bæri að ávinna sér traust leiðtoga allra stjórnmálaflokka. „Það er mjög slæm staða í þingræðisríki að tíundi hver Íslendingur segist treysta Alþingi. Við þurfum að endurreisa þetta traust með því að leiða saman ólík sjónarmið,“ sagði Þóra og sagði að þingkosningar yrðu haldnar „eftir nokkra mánuði“.

Spurð að því hvernig hún myndi taka á málum, kæmu upp átök á milli forseta og sitjandi stjórnvalda, sagði hún að fyrst og fremst ættu menn að reyna að ná saman og ná sáttum. „Ef það gerist ekki, þá er það hans hlutverk (forsetans) að vera mótvægi við ríkisstjórn og þing.“

Getur ekki talað gegn stefnu ríkjandi stjórnvalda

Varðandi málskotsréttinn sagði Þóra að um væri að ræða neyðarhemil sem til dæmis væri hægt að nota varðandi ESB-aðild. „Mér finnst að ekki megi tala um málskotsréttinn af léttúð eins og það sé sjálfsagt mál að taka lög sem Alþingi afgreiðir og synja þeim eða fresta.“ Hún sagði að ákveðinn hluti kosningabærra manna gæti óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, en sagðist ekki telja það leið í rétta átt að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum.

Spurð um utanríkisstefnu sagði Þóra augljóst að forsetinn gæti ekki rekið eigin utanríkisstefnu og talað gegn stefnu ríkjandi stjórnvalda. „Hann getur ekki farið út í heim og talað gegn utanríkisstefnu sem stjórnvöld hafa mótað. Það þýðir hins vegar ekki að hann geti ekki haft frumkvæði að málum,“ sagði Þóra.

Setja þarf ramma

Hlutverk forseta Íslands í kynningarstarfi fyrir íslensk fyrirtæki bar á góma í viðtalinu á Rás tvö og var Þóra spurð að því á hvaða hátt forseti Íslands ætti að taka þátt í slíku kynningarstarfi. Hún sagði að forseti ætti að nýta þær tengingar sem yrðu til í krafti embættisins, íslensku atvinnulífi og menningu til hagsbóta. „En ég tel að það þurfi að setja utan um það einhvers konar ramma,“ sagði Þóra.

Beðin að tilgreina nánar í hverju slíkur rammi gæti falist sagði hún erfitt að svara því. „Það er mjög erfitt að tiltaka nákvæm dæmi, en þetta eru almenn viðmið.“

Þóra var spurð hvað hún vildi að stæði eftir, næði hún kjöri. Ég vona að hún (arfleifðin) verði eitthvað á þá leið að eftir mína forsetatíð þá hefðum við stigið nokkur góð skref, kannski stór, í átt að því að ná betri samhljómi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert