Forsetar á forsíðum Grapevine

Tímaritið Grapevine kom út í dag. Ekki var þó alveg um hefðbundna útgáfu að ræða því þessa vikuna prýða það fimm forsíður. Er þar um að ræða myndir af forsetaframbjóðendum landsins, að undanskilinni Herdísi Þorgeirsdóttur sem kaus að láta ekki birta forsíðumynd af sér.

Eru frambjóðendurnir allir í búningi sem myndi hæfa opinberri mynd af forseta. Fyrirmyndin er ljósmynd af Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í kjólfötum með keðju og stórkrossstjörnu. Einungis þjóðhöfðingjar mega bera keðju og stórkrossstjörnu, en þar er um efsta stig fálkaorðunnar að ræða.

Sjá má þær Andreu Jóhönnu Ólafsdóttur og Þóru Arnórsdóttur uppábúnar með borða og stórkrossstjörnu og þá Ara Trausta Guðmundsson og Hannes Bjarnason í kjólfötum með keðju og stórkrossstjörnu. Ekki var þó um að ræða að fjórmenningarnir hefðu borið þessar æðstu orður íslensku fálkaorðunnar á sér, enda ekki orðin þjóðhöfðingjar ennþá. Þeim var haganlega komið fyrir á myndunum með hjálp tölvutækninnar.

Vildu gera forsetakosningunum hátt undir höfði

Í samtali við mbl.is sagði Haukur S. Magnússon, yfirritstjóri Grapevine, að þau hefðu viljað gera kosningunum hátt undir höfði. Hver frambjóðandi hefði fengið viðtal og allir hefðu fengið jafn stórt pláss í blaðinu og spurningarnar hefðu verið af svipuðum toga hjá hverju og einu.

„Við vildum gera forsetakosningunum góð skil og markhópurinn okkar er útlendingar og enskumælandi Íslendingar, hvort sem þeir eru aðfluttir eða hér fæddir. Við þjónum þeim kannski einna helst. Þetta eru mikilvægar kosningar og lýðræðið er mjög mikilvægt. Okkur langaði að vekja athygli okkar lesenda á því. Við birtum viðtöl við alla frambjóðendur og til að vekja athygli á því vildum við gera fallega kápu og hvetja fólk til að taka blaðið og lesa viðtölin,“ sagði Haukur.

Með þessu geti hver og einn séð fyrir sér myndrænt hvernig frambjóðendurnir taki sig út í forsetalegum stellingum. „Kannski hjálpar það ímyndunaraflinu og kannski jafnvel getur maður búið til betri heildarmynd af persónunni,“ sagði Haukur á léttum nótum.

Fólk velur forsíðu af sínum frambjóðenda

„Við hringdum í alla og spurðum hvort þau væru til í þetta. Okkur langaði að gera jafnvel kosningu götunnar. Þessu er auðvitað dreift um allan bæ og fólk tekur blað með þeim frambjóðenda sem þeim hugnast best. Okkur fannst þetta skemmtilegt verkefni og fyrst okkur datt þetta í hug vildum við athuga hvort við gætum þetta og við gátum þetta,“ sagði Haukur og bætti við: „Svo var það mikil gæfa að við fengum Sigurgeir Sigurjónsson í okkar lið, hann tók upphaflegu myndina af Ólafi Ragnari, sem við miðum við og er opinber mynd embættisins á heimasíðu þess.“

Aðspurður hvort auðvelt hafi verið að fá forsetaframbjóðendurna til að taka þátt sagði Haukur að það hefði verið misjafnt, en þó hefðu flestir verið tilbúnir í þetta. Herdís Þorgeirsdóttir hefði þó á endanum ekki viljað koma að þessu verkefni og hann virti þá afstöðu hennar. „Okkur finnast stjórnmál alveg mega vera skemmtileg líka. Það er ekki verið að gera grín að neinum,“ sagði Haukur að lokum.

Vildi ekki sprella með embætti forseta Íslands

Á Fésbókarsíðu Herdísar Þorgeirsdóttur segir um málið í dag: „Mér þótti ekki við hæfi að sprella með embætti forseta Íslands með því að klæða mig upp í forsetabúning og skreyta mig orðum og borðum fyrir ljósmyndir á forsíðu Grapevine.

Ég gerði Grapevine grein fyrir því að ég vildi ekki taka þátt í þessum myndatökum og þá var sólarhringur í að mynda ætti annan frambjóðanda.

Þótt hugmynd þeirra að vilja gera sér mat úr þessu efni sé skiljanleg í ljósi blaðamennsku fannst mér hugmyndin á engan hátt samboðin virðingu fyrir embætti forseta Íslands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert