Öryggisventill á lýðræðið

„Forseti Íslands á að vera einhvers konar öryggisventill á lýðræðið og þess vegna er mjög mikilvægt að forsetinn sé réttsýnn, að hann geti hlustað og að hann sé mjög ábyrgðarfullur maður,“ segir Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi um meginhlutverk forseta Íslands í þágu lands og þjóðar.

„Þó svo að það sé kveðið á um í nýjum tillögum að stjórnarskrá að ákveðinn fjöldi fólks geti skorað á forseta að hafna lögum þá léttir það ekkert byrðarnar hjá forseta, hann á að vakta lýðræðið,“ bætir Hannes við.

Af hverju gefur þú kost á þér? „Ég tel mig vera rödd alþýðunnar í þessari kosningabaráttu. Ég tel mig vera mann sem að kemur frá alþýðunni, frá verkamanna- og bændastétt, og úti í Noregi hef ég unnið mjög mikið í stjórnsýslunni við erfið verkefni, pólitík, og þess vegna tel ég mig vera svolítið nýtt, þ.e. rödd alþýðunnar og rödd hins venjulega manns. Vonandi getum við nýtt framboðið til þess að opna augu almennings fyrir því að maður þarf ekki að hafa verið hluti af einhverri elítu, hafa verið í sjónvarpi eða þar frameftir götunum til þess að vinna í þágu þjóðarinnar. Það er fullt af frambærilegu fólki út um allt land sem að hefði sjálfsagt meira að gera í embættið en ég, en ég er ekkert viss um að það fólk sem er í framboði núna sé neitt frambærilegra en ég í forsetann.“

Hvaða skoðun hefur þú á málskotsrétti forsetans? „Það á að vera hægt að beita málskotsréttinum en það verður að fara mjög varlega með hann því að þetta er geysilega öflugt verkfæri sem á eiginlega aðeins að nota í ýtrustu neyð. Ég sé fyrir mér tvenns konar hluti, ef svo er hægt að segja, sem geta leitt til þess að forsetinn beiti málskotsréttinum. Í fyrsta lagi að forsetinn telji lýðræðinu ógnað á einhvern hátt, þá á forsetinn að beita honum, og svo ef forsetinn bregst við áskorun frá þjóðinni eins og sitjandi forseti gerði núna í Icesave-málinu. Hann viðurkenndi óbeint í beinni útsendingu á RÚV, að hann hefði látið undan þrýstingi þjóðarinnar og beitt málskotsréttinum til þess að neita Icesave-lögunum.

Hvað hefðir þú gert í Icesave-málinu? „Það er náttúrlega voðalega auðvelt að vera vitur eftir á og segja að ég hefði gert svona og svona. En þegar maður lítur til baka og sér samfélagsmyndina eins og hún var á sínum tíma þá get ég varla ímyndað mér að sitjandi forseti á þeim tíma hefði átt nokkra aðra möguleika en að svara kalli þjóðarinnar og neita því að skrifa undir samningana.“

Hannes verður í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu um helgina ásamt öðrum forsetaframbjóðendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert