Boðið fram gegn sitjandi forseta í þriðja sinn

Í forsetakosningunum í ár gerist það í þriðja skiptið í sögu lýðveldisins að framboð eru á móti sitjandi forseta. Í fyrri tvö skiptin sigraði sitjandi forseti og þá var kjörsókn afar dræm sem endurspeglaði takmarkaðan áhuga á kosningunum meðal almennings. 

Einn hefur boðið sig þrisvar sinnum fram til embættisins, það er Ólafur Ragnar Grímsson forseti sem var í framboði árin 1996, 2004 og býður sig fram nú í ár. Ástþór Magnússon hefur boðið sig fram tvisvar, 1996 og 2004 og hugði á framboð í þriðja skiptið nú, en framboðið var metið ógilt.

Vigdís Finnbogadóttir bauð sig einnig fram í tvígang, í fyrra skiptið árið 1980 er hún var kjörin forseti og í síðara skiptið árið 1988 þegar Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram á móti henni.

Í þeim kosningum fékk Vigdís 94,6% atkvæða og Sigrún fékk 5,4%. Kjörsókn var í dræmari kantinum, eða um 72%.  Fremur lítið fór fyrir kosningabaráttu forsetans og gagnrýndu stuðningsmenn Sigrúnar Vigdísi nokkuð fyrir að hafa ekki viljað taka þátt í kappræðum í sjónvarpi.

Kjörsókn var enn dræmari árið 2004, eða 63% og meira en 20% skiluðu auðu. Þá buðu tveir sig fram á móti sitjandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni. Það voru þeir Ástþór Magnússon Wium og Baldur Ágústsson.

Alls kusu 105.913 og fékk Ólafur Ragnar 67,5% atkvæða, Baldur fékk 9,9% og Ástþór 1,5%.  

Frétt mbl.is 28.6.2004: Ólafur Ragnar endurkjörinn forseti Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert