Kostnaður Ólafs rúmar 3,6 milljónir

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fram kemur í yfirlýsingu frá Ólafi Ragnari Grímssyni að heildarkostnaður fram á þennan dag vegna forsetaframboðs hans nemi 3.661.640 krónum. Sjálfur hafi hann lagt fram tvær milljónir króna í upphafi kosningabaráttunnar en þess utan hafi 20 einstaklingar og tvö fyrirtæki styrkt kosningabaráttu hans. Hann hvetur aðra frambjóðendur til þess að birta með sama hætti upplýsingar um fjármörgun sinnar kosningabaráttu.

Kostnaðurinn skiptist þannig að sögn Ólafs að 760 þúsund krónur hafi farið í húsaleigu, rúmar 664 þúsund krónur í vefsíðu og 540 þúsund í flug og gistingu vegna funda og ferða á landsbyggðinni. Þá sé almennur rekstrarkostnaður um 700 þúsund krónur og auglýsingar 850 þúsund krónur. Stærstur hluti auglýsingakostnaðarins hafi farið í útvarpsauglýsingar eða rúmar 574 þúsund krónur en einnig hafi verið um að ræða skjáauglýsingar og auglýsingar í héraðsfréttablöðum.

„Fjármögnun þessa kostnaðar er á þann veg að ég lagði sjálfur fram í upphafi kosningabaráttunnar 2 m.kr. Síðan hafa 20 einstaklingar og 2 rekstraraðilar lagt samtals í kosningasjóð 2 milljónir og 45 þúsund krónur.  Eru þau framlög öll í samræmi við gildandi lög og reglur. Auk þess hefur sala merkis og annað skilað um 200 þúsund. Fjármögnunin nemur því til þessa alls um 4,2 m.kr,“ segir ennfremur í yfirlýsingu Ólafs.

Þá segir að heildarkostnaður við framboðið hefði verið áætlaður um 4-5 milljónir króna en það sem út af standi, 3,6 milljónir, verði aðallega rakið til launakostnaðar. „Í ljósi umræðunnar vil ég beina því annarra frambjóðenda að birta nú sundurliðað kostnaðaryfirlit og áætlun um heildarkostnað við baráttuna,“ segir Ólafur að lokum í yfirlýsingu sinni.

Kosningasíða Ólafs Ragnars Grímssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert