Ólafur Ragnar með meirihluta atkvæða

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ragnar Grímsson nýtur, samkvæmt könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, stuðnings 57 prósenta kjósenda og hefur stuðningur við hann staðið í stað frá könnun sem gerð var fyrir tveimur vikum.

Þóra Arnórsdóttir fengi samkvæmt könnuninni 30,8 prósent atkvæða og hefur stuðningur við hana heldur aukist frá síðustu könnun, samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í dag.

Ólafur Ragnar Grímsson fengi rúman helming atkvæða, eða 50,8%, samkvæmt könnun Gallup sem greint var frá í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Þóra Arnórsdóttir fengi 33,6%, Ari Trausti 9,3%, Herdís Þorgeirsdóttir 3,4%, Andrea 2,5% og Hannes Bjarnason hálft prósent atkvæða.

Munurinn nánast óyfirstíganlegur

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Gunnari Helga Kristinssyni, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, að munurinn á Ólafi og Þóru sé mikill og megi nánast segja að hann sé óyfirstíganlegur.

Alls segja 7,5 prósent þeirra sem afstöðu taka í könnun Fréttablaðsins að þeir ætli að kjósa Ara Trausta Guðmundsson. Um 2,6 prósent kjósenda styðja Herdísi Þorgeirsdóttur samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, 1,7 prósent Andreu J. Ólafsdóttur og 0,3 prósent Hannes Bjarnason.

Enn hefur stór hluti þjóðarinnar ekki gert upp hug sinn til frambjóðendanna. Um 23,2 prósent þeirra sem þátt tóku í könnuninni sögðust ekki búin að ákveða hvern þau myndu kjósa. Það er heldur lægra hlutfall en í síðustu könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, sem gerð var fyrir tveimur vikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert