Fóru á Massey Ferguson, árgerð 1966, á kjörstað

Kosið var í Reykhólasveit eins og annars staðar á landinu í gær. Fararskjótarnir voru þó kannski heldur fjölbreyttari þar. Þannig kom Grundarfólk á dráttavélum, meðal annars Massey Ferguson 130 árgerð 1966, og vöktu þær mikla og verðskuldaða athygli á kjörstað.

Greint er frá kjördeginum í Reykhólasveit á vefsvæði Reykhólahrepps. Þar segir að dráttarvélarnar þrjár á Grund rétt ofan við Reykhólaþorp sem farið var á á kjörstað séu aðeins sýnishorn af þeim mikla fjölda fornvéla sem þeir Grundarbræður hafa gert upp á liðnum árum. „Iðulega á hátíðisdögum á sumrin eru dráttarvélarnar gömlu á Grund á ferð niðri í þorpi og þá er stundum fjöldi manna fenginn til að aka svo að allir traktorarnir fái að viðra sig.“

Traktorunum þremur óku að þessu sinni bræðurnir Guðmundur og Unnsteinn Ólafssynir á Grund og Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, kona Guðmundar, en með í för voru synir Ástu og Guðmundar, þeir Tindur Ólafur, Ketill Ingi og Kristján Steinn. 

„Traktorinn sem Ásta Sjöfn ók er Massey Ferguson 130, árgerð 1966, og því fimm árum eldri en ökumaðurinn. Hann er með fjögurra strokka 30 ha Perkins-dísilvél, fjóra gíra áfram og tvo aftur á bak og hátt og lágt drif. Hann var upphaflega í eigu hinna landsþekktu Kinnarstaðasystra í Reykhólasveit en kom að Grund árið 1989. Þessi gerð af Massey Ferguson var smíðuð í Frakklandi á árunum 1966-1972. Hægt var að fá þessa traktora bæði án framljósa og með (deluxe-útgáfa) eins og þessi vél er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert