Ólafur Ragnar spilaði á fylgið

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Kristinn Ingvarsson

Ólafur Ragnar Grímsson króaði Þóru Arnórsdóttur af gagnvart hægra fylginu með því að hengja kröftuglega á hana stimpil Samfylkingarinnar og tengja hana við ESB aðild. Hann spilaði þannig á fylgið, segir Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands.

Stefán skrifar pistil um kosningarnar á vefsvæði sitt. Hann bendir á að fimmta kjörtímabil Ólafs hefji hann með mestum stuðningi sjálfstæðismanna en sitt fyrsta hóf hann með stuðningi vinstri manna. „Hann skipti um stuðningsmannahóp!“

Hann segir Ólaf hafa lesið landslagið á kjósendamarkaðinum af fagmennsku og séð að hægra fylgið var á lausu. „Það var enginn sterkur hægri frambjóðandi í boði. Hann þurfti því einungis að tryggja sér stuðning hægri manna til að ná meirihluta.“

Það hafi hann gert með því að þykjast vera í stjórnarandstöðu og lýsa yfir andstöðu við Evrópusambandið. „En þessu til viðbótar króaði hann Þóru af gagnvart hægra fylginu með því að hengja kröftuglega á hana stimpil Samfylkingarinnar og tengja hana við ESB aðild, með heldur ósvífnum hætti. Þetta tókst líka og þar með var Þóra komin í vörn og átti lítil sóknarfæri gagnvart hægra fylginu.“

Þannig hafi hann spilað á fylgið, rekið það í réttirnar og dregið hægri menn í dilka. „Er hann þá orðinn sjálfstæðismaður núna? Nei, ég held ekki. Hann mun halda sinni stefnu, ÓRG-stefnunni. Sú stefna snýst um að tryggja að pólitískur ferill hans verði einstakur í sögu þjóðarinnar, óháð flokkum, stjórnum og stjórnarandstöðum.“

Stefán Ólafsson
Stefán Ólafsson mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert