Prófkjör, forval og uppstilling

mbl.is/Ómar

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmum fer fram í dag en alls eru 19 í framboði. Kjörstaðirnir eru sex og eru þeir opnir frá kl. 9-18. Búist er við fyrstu tölum klukkan 19.

Alls verður valið á framboðslista hjá fjórum stjórnmálaflokkum í fimm kjördæmum um helgina.

Á kjördæmisráðsfundi í Borgarnesi um helgina verður raðað í efstu sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er með forval í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi og stillt verður upp á lista flokksins í Suðurkjördæmi.

Stillt verður upp á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og póstkosning stendur yfir hjá Samfylkingunni í sama kjördæmi.

Frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins eru Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi, Birgir Ármannsson alþingismaður, Birgir Örn Steingrímsson framkvæmdastjóri, Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður, Elí Úlfarsson flugnemi, Elínbjörg Magnúsdóttir verkakona, Guðjón Sigurbjartsson framkvæmdastjóri, Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður, Gunnar Kristinn Þórðarson stuðningsfulltrúi, Hafsteinn Númason leigubílstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, Illugi Gunnarsson alþingismaður, Ingibjörg Óðinsdóttir stjórnunarráðgjafi, Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og útgefandi, Pétur H. Blöndal alþingismaður, Sigríður Á. Andersen, héraðsdómslögmaður og varaþingmaður, Sigurður Sigurðarson rekstrarráðgjafi, Teitur Björn Einarsson lögmaður og Þórhalla Arnardóttir framhaldsskólakennari.

Valið verður í fjögur efstu sætin á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi á kjördæmisþingi í Borgarnesi um helgina. Þar gefa kost á sér Bergþór Ólason fjármálastjóri, Akranesi, Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður, Bolungarvík, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri, Tálknafirði, Guðmundur Kjartansson, rekstrarstjóri og hagfræðingur, Reykholti, Haraldur Benediktsson, bóndi og formaður Bændasamtaka Íslands, Akranesi, og Sigurður Örn Ágústsson forstjóri, Blönduósi.

Valið á lista VG í fjórum kjördæmum

Á vegum VG fer á laugardag fram sameiginlegt forval í báðum Reykjavíkurkjördæmunum klukkan 10-18 og verður kosið í þrjú efstu sætin í hvoru kjördæminu. Einnig verður forval í Suðvesturkjördæmi frá klukkan 10-18 og er valið í sex efstu sætin. Loks verður listi uppstillingarnefndar VG fyrir Suðurkjördæmi lagður fram á kjördæmisfundi á Selfossi á laugardaginn.

Tólf eru í framboði í Reykjavík og þar af fimm núverandi þingmenn en frambjóðendurnir eru: Andrés Ingi Jónsson, Andri Sævar Sigríksson, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Björn Björgvinsson, Björn Valur Gíslason, Gísli Garðarsson, Ingimar Karl Helgason, Katrín Jakobsdóttir, Kristinn Schram, Svandís Svavarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Átta hafa gefið kost á sér vegna forvals VG í Suðvesturkjördæmi en þau eru: Daníel Haukur Arnarsson, Garðar H. Guðjónsson, Guðbjörg Sveinsdóttir, Lára Jóna Þorsteinsdóttir, Margrét Pétursdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Ögmundur Jónasson.

Í Suðurkjördæmi hafa Arndís Soffía Sigurðardóttir, lögfræðingur og varaþingmaður, og Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar í Vogum, lýst vilja til að leiða listann.

Uppstilling og póstkosning

Framsóknarflokkurinn mun skipa í efstu sæti framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi á aukakjördæmisþingi í Borgarnesi um helgina. Gert er ráð fyrir að alþingismennirnir Gunnar Bragi Sveinsson og Ásmundur Einar Daðason skipi tvö efstu sæti listans en einnig hafa Elsa Lára Árnadóttir kennari og Jóhanna María Sigmundsdóttir, búfræðingur og námsmaður, gefið kost á sér.

Þá stendur yfir póstkosning á vegum Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og er gert ráð fyrir að úrslit liggi fyrir í næstu viku. Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sækist eftir því að leiða framboðslista flokksins í kjördæminu og Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður sækist eftir 1.-2. sæti á listanum. Þá sækist Hlédís Sveinsdóttir eftir 2. sæti og þeir Benedikt Bjarnason og Hörður Ríkharðsson sækjast eftir 3.-4. sæti.

.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert