Katrín býður sig fram til formanns

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður VG, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns í flokknum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í morgun.

„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér sem formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á landsfundi sem haldinn verður í Reykjavík 22.-24. febrúar næstkomandi. Ég hef verið varaformaður hreyfingarinnar frá hausti 2003 og setið á þingi síðan 2007. Undanfarin fjögur ár hef ég gegnt embætti mennta- og menningarmálaráðherra í ríkisstjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar en á því kjörtímabili hefur verið unnið ötullega að því að reisa landið við eftir efnahagshrunið 2008. Næsta kjörtímabil er verk að vinna við að bæta kjör almennings á grunni sjálfbærs samfélags,“ segir í yfirlýsingunni.

Steingrímur J. Sigfússon tilkynnti í gær að hann hefði ákveðið að vera ekki í kjöri á landsfundi VG sem fer fram um næstu helgi. Steingrímur hefur verið formaður flokksins frá stofnun hans árið 1999.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert