„Villikettirnir“ ekki í minnihluta

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. Kristinn Ingvarsson

„Ég vil alls ekki líta svo á,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, spurður hvort ályktun landsfundar VG um Evrópumál sé ekki vísbending um að villikettirnir í VG séu komnir í mikinn minnihluta í flokknum. Tillaga sem Ögmundur studdi var felld.

Fyrr á kjörtímabilinu kallaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra nokkrar þingmenn VG villiketti og átti þar við Ögmund og nokkra þingmenn sem síðar hurfu á braut: Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Jón Bjarnason, Lilju Mósesdóttur, Atla Gíslason og Ásmund Einar Daðason.

Tillagan sem Ögmundur studdi á landsfundinum fólst í að þjóðin yrði spurð eftir kosningarnar hvort hún vildi halda áfram aðildarviðræðum við ESB. Sú tillaga var felld en önnur samþykkt sem gengur út á að viðræðunum verði settur tímarammi þannig að þeim ljúki innan tiltekins tíma á næsta kjörtímabili. Hafði Ögmundur þá ítrekað krafist þess að kaflaskil yrðu í viðræðunum fyrir kosningarnar 27. apríl, m.a. á flokksráðsfundi VG í febrúar 2012 og í þingræðu í janúar á þessu ári, auk yfirlýsinga í fjölmiðlum um málið.

Undir með naumum meirihluta

Ögmundur segir nýju tillöguna fela í sér ítrekun við andstöðu VG við inngöngu í ESB.

„Vinstrihreyfingin – grænt framboð ítrekar andstöðu sína við inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þetta er náttúrlega það sem skiptir meginmáli. Í öðru lagi er kveðið á um það í fyrsta skipti í samþykktum flokksins að tímamörk skuli sett á þessar viðræður en hinu er ekki að leyna að ég átti aðild að tillögu sem kvað á um þjóðaratkvæðagreiðslu í upphafi næsta kjörtímabils um aðildarferlið. Sú tillaga varð undir þó með naumum meirihluta. Að sjálfsögðu urðu það mér mikil vonbrigði.“

- Þýðir þessi ályktun ekki að þetta mál mun halda áfram langt inn í næsta kjörtímabil?

„Það er gerð tillaga um að það verði sett tímamörk á ferlið. Það er talað um eitt ár. Það er kveðið á um það í samþykkt landsfundarins. Þannig að það mun ekki geta gengið lengra inn í kjörtímabilið en nemur einu ári. Þetta er ekki eftir mínu höfði. Að sjálfsögðu er ég mjög ósáttur við þessa niðurstöðu. Því er ekkert að leyna. Ég hef beitt mér mér afdráttarlaust fyrir því að það yrðu kaflaskil í lok kjörtímabilsins og í upphafi þess næsta. En þetta varð niðurstaðan hjá landsfundinum.“

Horfi á það jákvæða

- Er þetta vísbending um það að villikettirnir í VG séu komnir í mikinn minnihluta í flokknum?

„Ég vil alls ekki líta svo á. Við skulum ekki missa sjónar á meginatriðinu sem er að flokkurinn ítrekar andstöðu sína við inngöngu í ESB. Og í annan stað eru í fyrsta skipti sett tímamörk á viðræðurnar þannig að við skulum líka horfa á hið jákvæða í þessu, þótt ég sé ekki að breiða yfir að ég er mjög ósáttur við að ekki sé kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu strax í upphafi næsta kjörtímabils.“

 - Hefurðu áhyggjur af því að þetta muni koma niður á fylgi VG í kosningunum?

„Ég ætla mér að stíga sæmilega áhyggjulaus í kosningabaráttuna og þeir sem eru andvígir þessu geta verið óhræddir um að okkar afstaða til Evrópusambandsins hafi ekkert breyst.“

Hefur ekki íhugað að yfirgefa VG

- Hefurðu hugsað þér til hreyfings eftir að ályktunin sem þú studdir náði ekki fram að ganga, að fara í annan flokk, annað framboð?

„Nei. Ég hef ekki gert það.“

- Hvernig myndirðu meta stöðuna í VG?

„Ég met hana svo að allir þeir sem eru velviljaðir þessari hreyfingu og eru þar innanbúðar horfir á það sem sameinar frekar en hitt sem sundrar og það sem sameinar okkur hvað varðar Evrópusambandið er andstaða við að Íslendingar gangi þar inn. Þar liggur fyrir mjög afdráttarlaus andstaða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert