Mismikill kostnaður við prófkjör

Þátttakendur í prófkjörum kosta mismiklu til.
Þátttakendur í prófkjörum kosta mismiklu til. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Prófkjör Illuga Gunnarsson kostaði tæpar fimm milljónir króna og var kostnaður hans mestur af þeim sem hafa skilað inn uppgjöri. Prófkjör Árna Páls Árnasonar var það prófkjör innan Samfylkingarinnar sem var dýrast þeirra sem hafa skilað uppgjöri, en það kostaði 771.000 krónur.

Þetta kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar þar sem birtar eru upplýsingar um tekjur og kostnað vegna prófkjöra. Séu heildartekjur eða heildarkostnaður vegna kosningabaráttu yfir 400 þúsund krónum ber frambjóðanda að skila uppgjöri og sérstöku fylgibréfi með því. Séu heildartekjur eða heildarkostnaður framboðs undir 400 þúsund kr. skal frambjóðandi skila yfirlýsingu þar um. 

Enginn í Framsókn og VG fór yfir 400.000

Alls hafa 23 af 35 frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkur- og Suðvestur-kjördæmum skilað ýmist uppgjörum eða yfirlýsingum. 47 þeirra sem tóku þátt í  prófkjörum Samfylkingarinnar í öllum kjördæmum hafa skilað af sér, 35 úr Vinstri grænum og 39 úr Framsókn. Enginn úr síðarnefndu tveimur flokkunum skilaði uppgjöri, heldur einungis yfirlýsingu, en það þýðir að enginn þeirra sem skilað hafa af sér fór yfir 400.000 krónur í kostnaði við prófkjör.

Illugi fékk fjárframlög frá 31 aðila, þar af nokkrum útgerðarfyrirtækjum og hæsta einstaka framlagið kom frá Kára Stefánssyni, 400.000 krónur.

Næstdýrast var prófkjör Jóns Gunnarssonar, það kostaði tæpar 2,8 milljónir og þar á eftir kemur prófkjör Sigríðar Andersen sem kostaði rúma 1,6 milljón. Meirihluti fjárframlaga til prófkjörs hennar voru bein framlög einstaklinga, en það er ekki skilgreint nánar.

Framlög frá ótilgreindum einstaklingum

Meirihluti þeirra fjárframlaga sem prófkjör Árna Páls fékk komu frá níu einstaklingum. Af öðru Samfylkingarfólki sem skilað hefur uppgjöri, er prófkjör Magnúsar Orra Schram næstdýrast. Það kostaði rúmar 725.000 krónur og kom hæsta framlagið, 400.000 krónur, frá Emblu lögmönnum, sem er fyrirtæki í eigu eiginkonu Magnúsar Orra.

Prófkjör Katrínar Júlíusdóttur var þriðja dýrasta innan Samfylkingarinnar, það kostaði rúmlega 711.000 krónur og kom mestallt féð frá einstaklingum, sem ekki eru tilgreindir.

Frambjóðendum í prófkjöri/forvali vegna alþingiskosninga 2013 ber að skila upplýsingum um tekjur og kostnað vegna kosningabaráttu til Ríkisendurskoðunar í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að prófkjör fór fram. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert