Þingfundur boðaður í dag

Boðaður hefur verið þingfundur í dag á Alþingi klukkan 10:30 en samkvæmt heimasíðu þingsins eru 50 mál á dagskrá þess í dag. Þar á meðal er frumvarp formanna Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Bjartrar framtíðar um afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni sem er 13. mál á dagskránni. Hugsanlegt er að samstaða sé um að afgreiða þau mál sem á undan koma.

Stíf fundarhöld stóðu yfir í gær þar sem reynt var að ná samkomulagi um þinglok og hvernig hægt yrði að lenda stjórnarskrármálinu fyrir kosningar en þau báru ekki árangur. Vegna viðræðnanna var ekki boðað til þingfundar í gær. Haft er eftir Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, í Morgunblaðinu í dag að reynt hafi verið að semja við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn um að málið kæmi til atkvæða en það hafi ekki tekist. Segir hún að framhald málsins sé óljóst og ekkert liggi fyrir um það hvenær þinglok verði en þau áttu samkvæmt starfsáætlun Alþingis að vera 15. mars síðastliðinn.

Haft er eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að Alþingi sé í raun runnið út á tíma með að fjalla um frumvarpið og breytingartillögur við það. Þar á meðal breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, sem gerir ráð fyrir að frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins komi í stað þess efnis sem fyrir er í frumvarpi formanna stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar.

„Það er óbreytt staða í þinginu. Stjórnarflokkarnir vilja breyta stjórnarskránni en við höfum á móti talað fyrir því að við reyndum að ná saman um stefnumörkun varðandi framhald stjórnarskrármálsins. Það hefur ekkert miðað í þessu samtali og réttast væri að fara að slíta þinginu og klára mál sem eru tilbúin til afgreiðslu og ekki er mikill ágreiningur um,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert