Þingið áfram í spennitreyju

mbl.is/Hjörtur

Þingfundur hefst í dag klukkan 10:30 með umræðum um störf þingsins en að þeim lokum heldur önnur umræða um frumvarp formanna stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar um afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni áfram. Málið var rætt fram á kvöld í gær en viðræður stóðu yfir í gærdag um mögulega afgreiðslu málsins og þinglok. Samtals eru 41 mál á dagskrá þingsins í dag.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu í gær um að þingfundum yrði frestað í dag en síðar ef nauðsyn krefði. Ljóst er þó að fundum Alþingis verði ekki frestað í dag í ljósi fjölda þingmála og skorts á samkomulagi um þinglok, en í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs að allavega sé reiknað með þingfundi á morgun. Ekki liggi hins vegar fyrir hvert framhaldið verði eftir það.

„Ég held að það sjái það nú allir í þjóðfélaginu að það er löngu tímabært að þingið ljúki störfum og menn geta ekki verið hér með ágreiningsmál á síðustu dögum þingsins,“ er haft eftir Ólöfu Nordal, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, en hún lagði fram þingsályktunartillögu um frestun þingfunda í gær áður en tillaga Jóhönnu sama efnis varð lögð fram.

„Ég held að flestir þingmenn séu á því að þessu þurfi að ljúka en menn eru með þetta stjórnarskrármál í spennitreyju og vilja ekki horfast í augu við staðreyndir,“ sagði hún ennfremur.

Þess má geta að lögum samkvæmt starfar Alþingi fram á kjördag og því er talað um að fresta fundum þess fram að kosningum í aðdraganda þeirra í stað þess að þinginu sé slitið. Fyrir vikið er hvenær sem er hægt að kalla Alþingi saman fyrir kosningar gerist þess þörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert