Ekki frekari niðurskurður eða skattahækkanir

Ögmundur Jónasson, Steingrímur J. Sigfússon og Árni Þór Sigurðsson á …
Ögmundur Jónasson, Steingrímur J. Sigfússon og Árni Þór Sigurðsson á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki verður um frekari hækkun skatta á næsta kjörtímabili að ræða samkvæmt kosningaráherslum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum og ríkisfjármálum sem Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, kynnti á blaðamannafundi í kosningamiðstoð flokksins við Borgartún í dag.

Stefnt er að því að viðhalda óbreyttu skattkerfi frá því sem nú er og lögð áhersla á að þær breytingar sem gerðar hafi verið á kerfinu á kjörtímabilinu hafi bjargað grunnstoðum samfélagsins frá frekari og skaðlegri niðurskurði en raunin hafi orðið. Þær breytingar hafi aukið skattbyrði hinna tekjuhæstu en lækkað hana hjá þeim tekjulægstu og aflað ríkissjóði þar með aukinna tekna.

Ennfremur er gert ráð fyrir því að ekki verði frekari niðurskurður í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum og að skattalækkanir á lág- og millitekjuhópa verði teknar til skoðunar geri launaskrið í hátekjuhópum vart við sig. Lögð er áhersla á að skattkerfið gegni lykilhlutverki við að tryggja jöfnuð í samfélaginu.

Þá er ætlunin að hefja stórsókn í heilbrigðis,- mennta- og velferðarmálum en VG telur það raunhæft miðað við núverandi efnahagshorfur og óbreytt skattkerfi. Framlög til þessara málaflokka verði aukin úr ríkissjóði samhliða því sem niðurgreiðsla skulda þjóðarbúsins verði hafin. Til fjármögnunar gerir VG ráð fyrir því að 50-60 milljarða svigrúm verði í ríkisfjármálunum á næsta kjörtímabili miðað við óbreytta stefnu í ríkisfjármálum og er þar byggt á þjóðhagspá Hagstofunnar. Þá verði auknar tekjur vegna aukinnar auðlindarentu.

Flokkurinn vill sömuleiðis skapa samstöðu um það á næsta kjörtímabili að bæta kjör þeirra sem starfa í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu umfram aðra enda séu kjör þeirra ekki í samræmi við mikilvægi þeirra fyrir samfélagið. Þá þurfi að bæta starfsaðstöðu og tækjakost í heilbrigðiskerfinu auk þess sem lögð er áhersla á byggingu nýs Landspítala og að komið verði skuldsettum heimilum til aðstoðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert