Farin fram af bjargbrúninni

Sigurður Guðmundsson
Sigurður Guðmundsson Ómar Óskarsson

„Heilbrigðismál þurfa að vera kosningamál,“ sagði Sigurður Guðmundsson, sérfræðilæknir á Landspítalanum og fyrrverandi landlæknir, á opnum fundi um hvernig megi endurbyggja heilbrigðiskerfið. Sigurður sagði Íslendinga ekki komna fram á bjargbrúnina heldur frekar fram af henni.

Húsfyllir var á Grand hótel þar sem fundurinn fór fram og því ljóst að mikill áhugi er á heilbrigðismálum sem kosningamáli fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fara 27. apríl næstkomandi. Sigurður sagði fund sem þennan mjög tímabæran og spurði hvers vegna ekki sé tekist á um heilbrigðismál á Íslandi. Heilbrigðismálin séu oftar en ekki kosningamál í öðrum löndum en aldrei á Íslandi. Tími sé kominn til að breyta því.

Hann sagði margt benda til þess að öryggi sjúklinga sé í hættu þar sem sífellt hafi verið klipið af framlögum til heilbrigðismála. Það sé sú stemning sem ríki meðal lækna. Landspítalinn sé hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar en þar sé ekki allt með felldu og ýmislegt sem gengið hafi á. Spítalinn sé yfirfullur og afleiðingin sú að fólk liggi reglulega á göngum. Þanþolið sé orðið svo lítið að við minnsta álag sé afar erfitt að ráða við aðstæður. „Slíkt ástand er ekki aðalsmerki góðs heilbrigðiskerfis.“

Þá benti Sigurður á að heilbrigðisstarfsmenn hafi verið kokhraustir þrátt fyrir niðurskurð, sagt að sjúklingum sé jafn vel sinnt og áður og fjárhagsáætlanir haldi. Starfsmenn hafi unnið af alúð og aldrei með hundshaus. „Þetta hafa verið skilaboð til samfélagsins og þeim hefur verið trúað. Kannski er bólan að springa framan í okkur núna.“

Á Alþingi hafi mikið farið fyrir umræðu Evrópusambandið, nýja stjórnarskrá og götustrákahegðun þingmanna í þingsal. Minna hafi verið fjallað um menntun og heilbrigðismál. „Nú líður að Alþingiskosningum og hver vonbiðillinn á fætur öðrum reynir að biðla til okkar. Heilbrigðismál hafa aldrei verið kosningamál en því ber að breyta.“ Hann sagði að frambjóðendum beri að gera kjósendum grein fyrir því hvort og hvernig þeir ætli að efla heilbrigðisþjónustuna á ný, og hvaðan þeir fjármunir eiga að koma.“

Stjórnmálamenn feimnir að ræða heilbrigðismál

Kristján Guðmundsson, formaður samninganefndar sérfræðilækna, hélt einnig framsöguerindi og vitnaði meðal annars í tölur frá OECD um framlög til heilbrigðismála miðað við landsframleiðslu. Samkvæmt þeim eru framlög Íslendinga rétt fyrir neðan meðaltal. „En landsframleiðslan hefur heldur ekki verið neitt sérstaklega há hér á landi. Og ég held að það verði ekki mikil breyting á framlögum til heilbrigðismála fyrr en landsframleiðslan eykst og hagvöxturinn.“ Hann sagði það staðreynd að aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustu fáist ekki nema að draga það frá annars staðar.

Þá sagði Kristján það staðreynd að stjórnmálamenn væru feimnir að tala um heilbrigðismál, segjast skotnir niður á tæknilegum atriðum. Það sé eitthvað sem þurfi að breytast því það verði að vera hægt að setjast niður og ræða þessi mál. 

Jafnframt fór hann yfir þau mörgu óleystu mál sem bíða nýs velferðarráðherra. Beðið sé lausna í fjölmörgum málum sem hafi beðið of lengi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Nefndi hann samninga við tannlækna, sérfræðilækna, sjúkraþjálfara, geislafræðinga, lífeindafræðinga og sjúkraliða. Þá sé það jafnlaunaátakið og nýjar lyfjagreiðslureglur.

Hann benti einnig á að samkvæmt tölum OECD eru fleiri læknar á Íslandi en víðast hvar annars staðar í OECD-löndunum, 3,6 miðað við 3,1 meðaltal, og mun fleiri hjúkrunarfræðingar eða 14,5 miðað við 8,6 meðaltal OECD-landanna. Hann sagði að það væri vert að skoða nánar.

Fjórtán heilsugæslulækna þarf á ári hverju

Að endingu hélt erindi Gunnlaugur Sigurjónsson, heilsugæslulæknir. Hann sagði fyrstu spurningu sem sjúklingar fái sem leiti á heilsugæslustöðvar vera „Hver er heimilislæknirinn þinn?“ Við þeirri spurningu hafi hins vegar alltof fáir svar. Tugþúsundir Íslendinga eru án heimilislæknis og óreiðan sé í raun svo mikil að talan er ekki almennilega þekkt.

Hann sagði að þeir sem skráðir eru á heilsugæslustöðvar eigi jafnan rétt á til þjónustu og þeir sem skráðir eru á sérstakan heilsugæslulækni á viðkomandi stöð. Það verði hins vegar til þess að þeir sem eru með skráðan heilsugæslulækni komist ekki að hjá honum vegna allra hinna sem bóka tíma. Hann sagði það skipta gríðarlega miklu máli að vera með fastan heilsugæslulækni því það kosti tíma og fjármagn að þurfa sífellt að setja sig inn í heilsufar fólks en þekkja það ekki. 

„Núverandi mönnun og framboð býður ekki upp á að allir geti átt sinn heimilislækni. Það truflar allt gangverk heilbrigðiskerfisins. Hvers vegna virðist skorturinn ekki vera viðurkenndur af stjórnvöldum?“

Gunnlaugur sagði ljóst að til þess að manna heilsugæsluna til að viðunandi verði þurfi að  útskrifa fjórtán heimilislækna á ári. Undanfarin ár hafi fjórir útskrifast. Nýliðun hafi einnig algjörlega brugðist á árunum fyrir efnahagshrunið 2008. Þá hafi verið nokkuð um að heimilislæknar hætti störfum vegna óánægju með starfsumhverfi sitt. 

Hann benti á að Félag íslenskra heimilislækna hafi talað fyrir mismunandi rekstrarformi í heimilislækningum þannig að opnað verði fyrir sjálfstætt starfandi heimilislækna. Gerður hafi verið samningur við ríkið en sá samningur hafi aldrei verið virkjaður, þrátt fyrir að biðlað hafi verið til nokkurra heilbrigðisráðherra. Gunnlaugur vísaði til stöðunnar í Noregi þar sem einkareknir heimilislæknar hafi tekið yfir þjónustuna og með gríðarlega góðum árangri.

Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson Ómar Óskarsson
Gunnlaugur Sigurjónsson
Gunnlaugur Sigurjónsson Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert