Mesta endurnýjun í sögu Alþingis?

Frá Alþingi
Frá Alþingi mbl.is/Styrmir Kári

Verði niðurstaða alþingiskosninganna 27. apríl næstkomandi í samræmi við skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir Morgunblaðið 2.-8. apríl sl. munu 30 nýir þingmenn taka sæti á Alþingi í vor eða 47,6% þingmanna. Það yrði mesta endurnýjun á þingi sem sögur fara af.

Eftir alþingiskosningarnar 25. apríl 2009 tóku 27 nýir þingmenn sæti á Alþingi. Á þingi sitja 63 þingmenn og því voru nýliðar 42,9% þingheims fyrir fjórum árum. Þá var endurnýjunin sú mesta sem orðið hafði í þingsögunni. Fara þurfti aftur til kosninganna 1991 til að finna næstmestu endurnýjunina en þá settust 25 nýir þingmenn á þing eða 39,7%. Eftir þingkosningarnar 12. maí 2007 settust 24 nýir þingmenn á Alþingi. Fari sem horfir nú, samkvæmt skoðanakönnunum, er ljóst að þorri þingmanna á næsta þingi mun eiga tiltölulega skamma þingreynslu að baki.

Minnsta endurnýjunin á Alþingi á síðari tímum varð fyrir réttri hálfri öld, árið 1963, þegar níu nýliðar settust á þing að loknum kosningum. Þingmenn voru þá 60 talsins og endurnýjunin því 15% það árið. Endurnýjun þingmanna á árunum 1934-2009 var að meðaltali 28,2%, samkvæmt Handbók Alþingis 2009.

Þrjár konur viku af þingi

Í kosningunum 2009 voru kjörnir 36 karlar og 27 konur til setu á Alþingi. Konur höfðu aldrei verið fleiri á þingi en þá eða 42,9% þingmanna. Þær Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hurfu af þingi á kjörtímabilinu og karlar tóku sæti í þeirra stað. Samkvæmt niðurstöðu fyrrgreindrar skoðanakönnunar myndu 37 karlar og 26 konur taka sæti á þingi yrðu úrslit kosninga samkvæmt könnuninni.

Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi forsætisráðherra, var fæddur 29. desember 1910. Hann var fyrst kjörinn á þing árið 1934, þá 23 ára og 177 daga gamall og er hann yngstur kjörinna alþingismanna. Hann var síðast kosinn í alþingiskosningunum 2.-3. desember 1979, og vantaði þá 26 daga upp á að vera orðinn 69 ára.

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, leiðir lista Regnbogans í NV-kjördæmi. Hann er fæddur 26. desember 1943 og verður því 69 ára og 121 dags gamall á kjördegi. Nái hann kjöri verður hann því elstur þeirra sem kjörnir verða nú. Næst honum að aldri í hópi frambjóðenda er Sigrún Magnúsdóttir, sem skipar 2. sæti framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún er fædd 15. júní 1944. Níu dögum yngri er Pétur H. Blöndal, sem skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður.

„Á slíkum kjördegi getur allt gerst“

„Maður getur aldrei sagt til um úrslit kosninga fyrirfram. Það er eitt af því sem gerir þetta svo spennandi,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir, þjóðfræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi. Hún skipar 2. sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið fengi flokkurinn þrjá menn í kjördæminu.

En átti Sigrún von á þeim mikla meðbyr sem Framsóknarflokkurinn nýtur nú í skoðanakönnunum þegar hún gaf kost á sér í 2. sætið?

Hún sagðist hafa boðið sig fram af tveimur ástæðum. Ekki síst þeirri að henni þótti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður leiða flokkinn með svo skemmtilegum hætti að hana langaði að vera með. En hver var hin ástæðan?

„Í fyrra voru allir aldraðir hvattir til að vera virkir. Er það ekki að vera virkur að taka þátt í samfélagsumræðunni og nöldra ekki bara heima í eldhúsi,“ spurði Sigrún. Hún verður 69 ára hinn 15. júní næstkomandi.

Sigrún byrjaði sín stjórnmálaafskipti vestur á Bíldudal árið 1970 þegar hún bauð sig fram í sveitarstjórn Suðurfjarðahrepps. Hún var síðar í borgarstjórn Reykjavíkur í 20 ár og vann því lengi að sveitarstjórnarmálum.

Sigrún bauð sig fyrst fram til Alþingis 1978 og aftur 1979 og varð þá varaþingmaður. Hún settist á þing sem varaþingmaður Ólafs heitins Jóhannessonar bæði 1980 og 1982. „Það er kannski merkilegt að láta líða rúm 30 ár á milli þess sem maður fer í framboð til Alþingis,“ sagði Sigrún. Eftir að hún hætti í borgarmálunum lærði hún þjóðfræði við Háskóla Íslands. Þar lærði hún ýmislegt um þjóðtrúna.

„Kjördagurinn er sá 27. og þversumman af því er níu. Nían er mögnuð tala og á slíkum kjördegi getur allt gerst,“ sagði Sigrún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert