Óvissa um framtíð Bjarna

Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins
Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Ómar Óskarsson

Erfitt er að meta líkurnar á því hvort Bjarni Benediktsson haldi áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins að sögn Grétars Þórs Eyþórsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Akureyri. Grétar bendir á að Bjarni sé hinsvegar búinn að opna á þann möguleika að hætta, með yfirlýsingum sínum.

Þá segir Grétar að yfirlýsingar Bjarna bendi til þess að verulegur þrýstingur sé á honum. Þá bendir Grétar einnig á að ekki þurfi svo mikla sveiflu sjálfstæðismanna sem snúi heim frá Framsóknarflokknum til að jafna metin. Þá segir hann að Bjarni muni þurfa á mjög skýrum meldingum úr flokknum að halda til að geta haldið áfram sem formaður.

Stuðningur frá flokksmönnum

„Já, hinsvegar verðum við kannski líka að horfa á vangaveltur formannsins í ljósi þess að samkvæmt skoðanakönnunum frá því í janúar þá stefnir í annan sögulegan ósigur Sjálfstæðisflokksins í röð í kosningum. Því síðast var sögulegur ósigur 2009. Öðru eins 2013 held ég að engan hafi órað fyrir, fyrir nokkrum mánuðum. Það er von að menn í Sjálfstæðisflokknum leiti logandi ljósi til að snúa taflinu við,“ segir Grétar aðspurður hvort þessar vangaveltur Bjarna væru ekki tíðindi í sjálfu sér.

Bjarna barst stuðningur frá fjölda flokksmanna í gær í kjölfar ummæla sinna í fyrrnefndu viðtali í Ríkissjónvarpinu í fyrrakvöld þess efnis að hann útilokaði ekki að draga sig í hlé sem formaður flokksins. „Það hefur ekki hvarflað að mér að stíga til hliðar þó að það hafi blásið á móti, en ég verð að viðurkenna að núna, svona nálægt kosningum, og í ljósi þeirrar umræðu sem er að grafa um sig í þjóðfélaginu, að hluti vandans sé að einhverju leyti tengdur formanninum, að þá get ég bara ekki leyft mér annað en að velta því fyrir mér. Ég verð að gera það,“ sagði Bjarni í umræddu viðtali.

Enn liggur ekkert fyrir um hvaða ákvörðun hann muni taka í málinu og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Bjarna í gær.

„Já, kosningabarátta flokksins hefur haldið áfram eins og hún var áformuð þannig að það er allt á fullu hér í Valhöll eins og hefur verið síðustu daga. Við finnum fyrir því að okkur er farið að ganga betur í samtölum okkar við kjósendur og erum með miklar væntingar um það að við munum ná árangri,“ segir Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, spurður um stöðuna í Valhöll og hvort forystumenn flokksins hefðu verið í einhverjum skipulögðum fundahöldum um stöðuna í gær.

Spurður að því hvort Bjarni hafi fundað með framámönnum í flokknum í Valhöll í gær um stöðu málsins segir Jónmundur að Bjarni hafi verið í miklu sambandi við oddvita flokksins í öllum kjördæmum og auk þess verið á ferð og flugi á fundum. „Ekki síst í sínu eigin kjördæmi, bara eins og dagskrá dagsins bauð uppá.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert