Framsókn stærst í könnun Gallup

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Framsóknarflokkurinn mælist enn stærstur samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Rúv. Niðurstöður könnunar sem MMR birti fyrr í dag benda hins vegar til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærstur.

Í könnun Gallup bæta Sjálfstæðisflokkur og Samfylking við sig mestu fylgi og fylgi Vinstri grænna og Pírata eykst einnig. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir í samtali við Rúv að í þessari könnun sjáist algengt munstur, að þegar nálgist kjördag sé einhver hópur kjósenda sem „leitar heim“.

Framsókn með 27% og Sjálfstæðisflokkur 24%

Framsóknarflokkurinn tapar fylgi samkvæmt könnun Gallup en mælist engu að síður stærstur, með tæplega 27% fylgi. Sjálfstæðisflokkur bætir við sig og fær rúm 24 prósent. Samfylkingin bætir við sig þremur prósentustigum og fer yfir fimmtán prósent.

Vinstri græn bæta líka við sig og mælast með tæp níu prósent. Píratar eru enn á uppleið og fá rúm átta prósent en Björt framtíð dalar og fær átta prósent. Önnur framboð eru langt frá fimm prósenta markinu, sem tryggir uppbótarsæti.

Dögun og Lýðræðisvaktin eru með um og undir þremur prósentum. Flokkur heimilanna og Hægri grænir eru með ríflega eitt prósent. Regnboginn fær hálft prósent en Sturla Jónsson, Húmanistaflokkurinn, Landsbyggðarflokkurinn og Alþýðufylkingin fá núll komma núll prósent.

Samkvæmt þessu fær Framsóknarflokkur 20 þingmenn, Sjálfstæðisflokkur 17 og Samfylking 10 þingmenn. Vinstri græn fá sex þingmenn en Píratar og Björt framtíð fimm hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert