Bognar stundum en brestur aldrei

„Við skulum ekki láta nokkurn mann ljúga því að okkur að þessi stjórn hafi ekki unnið afrek,“ sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á baráttufundi Samfylkingarinnar sem fram fór í dag vegna þingkosninganna á laugardaginn. Hann sagði að frá því að núverandi ríkisstjórn hafi tekið við völdum hafi fjárlagahallinn orðið minni, atvinnuleysi dregist saman, vextir lækkað og verðbólga minnkað.

„Halda menn að þetta hafi gerst af sjálfu sér? Nei, það gerðist vegna verka ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur,“ sagði Össur ennfremur og bætti við að fráfarandi ríkisstjórn hefði tekist það sem engri annarri ríkisstjórn hefði áður tekist sem væri að jafna kjörin. Það sæist meðal annars á því að kaupmáttur væri nú aftur orðinn sá sami og árið 2006 og að kaupmáttur hinna lægst launuðu hefði aukist í kreppunni.

„Auðvitað er það þannig að menn hafa átt erfitt. Auðvitað er það þannig að við höfum ekki getað gert allt það sem við vildum. En það breytir ekki hinu að við komum þessu þjóðfélagi aftur á réttan kjöl þar sem að aðrir gáfust upp. Við tókum við þjóðfélagi sem hafði lent í hruni, ég þarf ekki annað en að vísa í rannsóknarskýrslu Alþingis til þess að menn skilji hverjir það voru sem komu því í það ástand,“ sagði hann og vísaði þar til Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

„Við höfum sýnt það, Samfylkingin hefur sýnt það að í henni er hryggsúla sem stundum bognar, brestur aldrei, réttir sig alltaf upp á réttum tíma. Og nú er komið að því félagar. Nú þurfum við að fara í bátana, róa fyrir hverja vík, allar víkur, tala við alla þá sem við getum. Alla þá sem einhvern tímann hafa horft ástaraugum til jafnaðarstefnunnar og fá þá í lið með okkur. Ef það tekst þá munu fleiri en færri vakna steinhissa morguninn eftir kosninganóttina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert