Mismunun og leifar liðinnar tíðar

Samtökin ´78 hafa lengi krafist þess að samkynhneigðir karlar fái …
Samtökin ´78 hafa lengi krafist þess að samkynhneigðir karlar fái að gefa blóð. mbl.is

Allir flokkar og framboð sem bjóða fram til Alþingiskosninganna á laugardaginn vilja að reglur Blóðbankans um bann við blóðgjöfum samkynhneigðra karlmanna verði endurskoðaðar. Flokkarnir segja að um alvarlega mismunun sé að ræða og leifar frá gamalli tíð.

Samtökin ´78 spurðu öll framboðin um afstöðu þeirra til blóðgjafa samkynhneigðra, en starfsreglur Blóðbankans leggja bann við blóðgjöfum karlmanna sem haft hafa kynmök við einstakling af sama kyni. Samtökin ´78 segja að um mismunun á grundvelli kynhegðunar sé að ræða og hafa ítrekað vakið athygli á þessu.

Í svari Vinstri grænna segir meðal annars „Það skýtur skökku við að Blóðbankinn vísi karlmönnum sem hafa mök við aðra karlmenn varanlega frá sem blóðgjöfum, hvort sem þeir stundi ábyrgt kynlíf eða áhættusamt.“ Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á stefnu flokksins sem hafnar „hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir [...] kynhneigð“. Björt framtíð, Dögun, Húmanistaflokkurinn, Hægri grænir, Lýðræðisvaktin, Píratar, Regnboginn, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn taka í sama streng. Samfylkingin ályktaði meðal annars um málið á landsfundi flokksins en í skriflegu svari sínu til Samtakanna ’78 líkir Húmanistaflokkurinn banninu við nornaveiðar.

„Þrátt fyrir að Ísland sé framarlega þegar kemur að lagalegum réttindum hinsegin fólks og mannréttindum almennt, hefur regluverk Blóðbankans á Íslandi enn ekki verið endurskoðað í takti við það og verður það að teljast mjög slæmt. Nú þegar hafa í það minnsta fimm þjóðir afnumið slíkt bann með öllu og um tíu til viðbótar hafi stytt bannið niður í allt að sex mánuðum frá síðustu kynmökum,“ segir í tilkynningu frá Samtökunum ´78. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert