Reynt að bjarga í horn á síðustu stundu

Allir sem fylgst hafa nokkrum sinnum með baráttu fyrir þingkosningar vita hverju þeir eiga von á síðustu vikurnar: flokkar og frambjóðendur lofa öllu fögru og ráðherrar eru önnum kafnir við að klippa á borða, kynna skýrslur og lofa fjárframlögum til bæði bráðnauðsynlegra verkefna og annarra. Síðan velta menn fyrir sér hvort það sé einskær tilviljun að þessi glaðningur verði að veruleika korteri fyrir kosningar en ekki ári eða tveim fyrr.

Velferðarráðherra undirritaði á þriðjudag viljayfirlýsingu með bæjarstjóra Hafnarfjarðar um „uppbyggingu heildrænnar þjónustu fyrir aldraða“ í Firðinum. Á næstu árum. Stundum er um litlar fjárhæðir að ræða, þannig samdi innanríkisráðherra við Rauða krossinn á þriðjudag um að veittar yrðu þrjár milljónir króna til að fjármagna þjónustu við hælisleitendur. En stutt er síðan atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra ákvað að styðja nýja verksmiðju við Húsavík með skattaívilnunum upp á milljarða króna.

Velferðarráðherra samdi nýlega við tannlækna um að börn og unglingar fengju fría þjónustu, þ.e. að ríkissjóður borgi. Og fjármála- og efnahagsráðherra hefur nú kynnt viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna um aðgerðir í þágu lántakenda með lánsveð. Talsmaður lífeyrissjóðanna tekur skýrt fram að málið sé fjarri því að vera í höfn.

Gjafmildir ráðherrar

Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn voru líka iðnir við að gefa út kosningavíxla fyrir kosningarnar 2007. Ráðherrar menntamála og fjármála undirrituðu samning um að efla íslenska kvikmyndagerð með nær þúsund milljóna aukaframlagi fram til 2010. Lofað var alls um 50 milljónum til Þróunarsjóðs innflytjenda, komið var á fót ferðasjóði íþróttafélaga með alls 270 milljóna framlagi næstu þrjú árin. Framlög til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru tvöfölduð næstu árin í 1.400 milljónir árlega.

Reddingar rétt fyrir kosningar til að bæta ímyndina eru hluti af því sem fram fer á leiksviði stjórnmálanna. Sumt er þó ekki endilega til vinsælda fallið, nefna má breytingar á reglum um greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði, nú fyrir fáeinum dögum. Freistingin hlýtur að hafa verið nokkur að bíða fram yfir kjördag.

Ríkisstjórnir sem eiga eftir að sitja í fáeina daga eða vikur ræða og samþykkja jafnvel umbætur sem af einhverjum ástæðum hafa verið afskiptar í fjögur ár. Þannig hefur núverandi stjórn á síðustu fundum sínum í apríl m.a. rætt tillögur að „stefnu Stjórnarráðs Íslands í upplýsinga- og samskiptamálum“, viðskiptahætti slitastjórna, stuðning stjórnvalda við að kaupa nýjan örgreini og tillögur starfshóps um birtingu fjárhagsupplýsinga.

Þess má geta að í Danmörku gildir sú hefð að ráðherrar nánast yfirgefa ráðuneyti sín minnst þrem vikum fyrir kosningar, koma þar aðeins til að afgreiða óumdeild mál. Sérstakir, pólitískir ráðgjafar þeirra eða aðstoðarmenn hætta samstundis störfum þegar kjördagur hefur verið ákveðinn og hafa ekki lengur aðgang að gögnum sem tengjast starfinu. Engar mikilvægar pólitískar ákvarðanir eru teknar frá þeim tíma fram að kjördegi og áhersla er lögð á að stjórnkerfið hygli ekki einstökum flokkum í kosningabaráttunni.

Fagmennska og líka fúsk

Stjórnvöld hafa frá ársbyrjun 2012 komið á fót hundruðum ráða, verkefnisstjórna og starfshópa (oft ólaunaðra), eins og ljóst varð í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn þingmanns. Oft er sagt að sumar skýrslur sem sérstakir starfshópar ráðherra sendi frá sér lendi ólesnar uppi í hillu.

Ásta Möller, fyrrverandi þingmaður og nú forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, segir rétt að ekki sé starf allra slíkra hópa mjög gagnlegt. Stundum séu þeir beinlínis skipaðir til að þæfa mál.

„En oft er verið að tryggja með hópunum að á bak við ákvarðanir séu fagleg sjónarmið og rannsóknir en ekki hentistefna,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert