Vantraust bakgrunnur kosninganna

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, á fundinum.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, á fundinum. mbl.is/Styrmir Kári

Efnahagshrunið leiddi til kreppu í íslenska flokkakerfinu, sem endurspeglast m.a. í miklum fjölda framboða og vantrausti á Alþingi, sem er í sögulegu hámarki. Lítið traust á þinginu, stjórnmálaflokkunum og stjórnmálakerfinu er bakgrunnur þeirra kosninga sem fram fara á laugardag og í slíku andrúmslofti má gera ráð fyrir meiri sveiflum á fylgi flokka en ella.

Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi sem haldinn var í Háskóla Íslands í gær undir yfirskriftinni „Hvernig hegða kjósendur sér?“ en framsögumenn voru Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, og Eva Heiða Önnudóttir, doktorsnemi í stjórnmálafræði.

„Við búum í rauninni eftir bankahrun, að mínu mati, við djúpa félagslega og pólitíska kreppu,“ sagði Ólafur á fundinum. Hann sagði að þvert á það sem menn gætu haldið hefði kjörsókn þó ekki minnkað í alþingiskosningum og svo virtist sem áhugi á stjórnmálum færi vaxandi á Íslandi.

Mettap stjórnarflokkanna

Ólafur sagði að búast mætti við því að sveifla kjósenda milli flokka yrði jafnvel meiri nú en í kosningunum 2009, þegar hún var 34%.

„Það hefur verið tilhneiging í Evrópu, alveg frá stríðslokum, að stjórnarflokkar tapa frekar en vinna, og sú tilhneiging hefur verið að vaxa síðustu 10-20 árin,“ sagði hann en þetta ætti bæði við þegar illa gengi í efnahagsmálum og vel.

Hann sagði skoðanakannanir spá fyrir um 25-27% fylgistap stjórnarflokkanna en gamla metið, 18%, hefði verið sett í kosningunum 1978. „Þannig að það er einstakt í íslenskri stjórnmálasögu ef þetta gengur eftir.“

Ólafur sagði söguna jafnframt sýna að fjórflokkurinn hefði nærri alltaf fengið yfir 90% atkvæða, nema árið 1987 þegar hann fékk aðeins 75% atkvæða, og héldu þá einhverjir að flokkakerfið væri að hrynja.

Þá sagði hann dauð atkvæði ekki hafa verið mikið vandamál í íslenska kerfinu, þau hefðu oftast verið innan við 5%, sem væri lítið í samanburði við önnur lönd. Kannanir gæfu hins vegar til kynna að nú yrðu þau um 10%, sem væri umhugsunarefni fyrir áhugamenn um kosningakerfi.

Geta ekki beðið þetta af sér

Á fundinum sagði Eva Heiða rannsóknir sínar hafa leitt í ljós að efnahagsmál hefðu haft mun meiri áhrif á það hvaða flokk fólk kaus í kosningunum 2009 en 2007 en að flokkshollusta og hægri-vinstri nálægð við ákveðinn flokk hefðu skipt minna máli. Þannig hefði eitthvað sem ætti undir venjulegum kringumstæðum að taka hægum breytingum breyst á stuttum tíma.

Hún sagði efnahagskreppuna hafa leitt til kreppu í flokkakerfinu og benti á að traust almennings til Alþingis hefði farið niður í 10% árið 2008 og haldist þar síðan.

„Þetta er ekkert sem flokkarnir geta beðið af sér,“ sagði Eva, „og það er algjörlega í höndum flokkanna, bæði nýrra og gamalla, að grípa til aðgerða. Sjálfsagt hafa þeir flestir gert það en það virðist ekki hafa skilað sér í auknu trausti, alla vega ekki enn sem komið er.“

Í umræðum sagði Eva að í kosningunum 2009 hefðu aðrir þættir farið að skipta máli en venjulega, svo sem hvaða flokki fólk treysti best til að leysa mikilvæg verkefni en fyrir marga hefði það ekki endilega verið sá flokkur sem stóð því næst hugmyndafræðilega. „Þetta hlýtur að setja ákveðna pressu á gömlu flokkana, þeir geta ekki gengið að „sínum“ kjósendum vísum,“ sagði hún.

Aðdáendur stjórnarinnar

Ólafur sagðist á fundinum hafa átt samtöl við marga erlenda blaðamenn sem væru undrandi á litlu fylgi stjórnarflokkanna.

„Ég hef nú verið að reyna að útskýra það í löngu máli en aðallega sagt að vandi þessarar ríkisstjórnar er að aðdáendur hennar eru aðallega frekar hægrisinnaðir hagfræðingar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD og stöku fjármálablaðamenn, t.d. hjá Financial Times. En þeir hafa ekki kosningarétt á Íslandi,“ sagði hann.

„Við búum í rauninni eftir bankahrun, að mínu mati, við …
„Við búum í rauninni eftir bankahrun, að mínu mati, við djúpa félagslega og pólitíska kreppu,“ segir Ólafur Þ. Harðarson. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert