Skynjar sveiflu til Samfylkingarinnar

„Þetta leggst bara vel í mig. Mér finnst kannanir síðasta daga vera að sýna ákveðna sveiflu til okkar á lokasprettinum og ég held að sífellt fleiri séu að átta sig á því að sterk Samfylking er forsenda þess að ná að brjóta upp það helmingaskiptasamkomulag sem að stefnir í að öðrum kosti.“

Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is spurður um tilfinningu hans gagnvart þingkosningunum, en hann greiddi atkvæði í morgun í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hann bætir því við að sterk kosning hans flokks sé einnig forsenda þess að haldið verði áfram með umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið.

„Samfylkingin verður að fá afl til þess að sprengja upp þetta ástand og koma þannig almannahagsmunum og atriðum eins og aðildarviðræðunum á dagskrá og fylgið er forsenda þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert