Umboðið fer til Bjarna eða Sigmundar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á fundi með forseta Íslands, Ólafi Ragnar …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á fundi með forseta Íslands, Ólafi Ragnar Grímssyni, á Bessastöðum í dag. mbl.is/Golli

Það skýrist eftir viðræður forseta Íslands við formenn flokkanna í dag hvort Bjarni Benediktsson eða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fær umboð til stjórnarmyndunar. Nokkuð ljóst er að viðræður um myndun næstu ríkisstjórnar verða milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Sá sem fær umboðið verður ekki alltaf forsætisráðherra

Það er ekki alltaf þannig að sá sem fær stjórnarmyndunarumboð verði forsætisráðherra þó að viðræðurnar leiði til þess að flokkarnir sem ræða saman nái samkomulagi. Árið 1974 vann Sjálfstæðisflokkurinn mikinn kosningasigur og fékk Geir Hallgrímsson, formaður flokksins, umboð til að mynda ríkisstjórn. Eftir að honum mistókst að mynda ríkisstjórn fékk Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, umboð til að mynda stjórn. Niðurstaðan varð sú að samkomulag tókst milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um myndun ríkisstjórnar og Geir varð forsætisráðherra.

Eftir kosningarnar árið 1983 fékk Geir umboð til að mynda ríkisstjórn. Honum tókst ekki að mynda stjórn. Þá fékk Steingrímur Hermannsson, formaður Framsóknarflokksins, umboðið og síðan Svavar Gestsson, formaður Alþýðubandalagsins. Síðan fékk Steingrímur aftur umboðið og tókst þá samkomulag milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Þegar kom að því að ákveða hver yrði forsætisráðherra stóðu sjálfstæðismenn frammi fyrir tveimur kostum, að taka forsætisráðuneytið eða að láta það frá sér og samþykkja að fá fleiri ráðherra en Framsóknarflokkurinn. Fram fór atkvæðagreiðsla í þingflokki Sjálfstæðisflokks þar sem seinni kosturinn var samþykktur. Niðurstaðan varð því sú að Steingrímur varð forsætisráðherra og Geir utanríkisráðherra.

Það er því varasamt að draga of víðtækar ályktanir út frá því hverjum forseti Íslands veitir stjórnarmyndunarumboðið eftir kosningar. Það er ekki sjálfgefið að hann verði forsætisráðherra. Í fyrsta lagi verður viðkomandi að takast að ná samkomulagi við aðra flokka um myndun ríkisstjórnar og í öðru lagi er ráðherraskipan í nýrri ríkisstjórn alltaf samkomulagsatriði milli flokkanna.

Aldrei áður með jafnmarga þingmenn

Frá lýðveldisstofnun hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sex sinnum myndað ríkisstjórn. Af þessum sex ríkisstjórnum hafa fjórar verið undir forystu Sjálfstæðisflokks og tvisvar verið undir forystu Framsóknarflokks. Árið 2003 varð að samkomulagi að Sjálfstæðisflokkurinn myndi láta Framsóknarflokknum eftir forsætisráðuneytið á miðju kjörtímabilinu.

Allt bendir til að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur séu að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Þessir flokkar hafa oft áður verið í þessari stöðu og oft starfað saman. Sú staða hefur hins vegar aldrei áður verið uppi að þeir séu með jafnmarga þingmenn. Forystumenn flokkanna þurfa því að finna pólitískt jafnvægi í málefnasamningi og verkaskiptingu sem flokksmenn þeirra sætta sig við.

Ólafur Ragnar bauð Halldóri forsætisráðuneytið árið 1995

Það hefur stundum gerst að stjórnmálaforingjar reyna að kaupa flokka til samstarfs með því að bjóða þeim forsætisráðherrastólinn. Árið 1995 lagði Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var formaður Alþýðubandalagsins, til við Vigdísi Finnbogadóttur forseta, að Halldóri Ásgrímssyni, formanni Framsóknarflokks, yrði veitt umboð til að mynda vinstristjórn. Halldór hafði ekki áhuga á slíku stjórnarmynstri og ákvað frekar að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.

Eftir kosningarnar 2003 gátu Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin myndað meirihlutastjórn. Þá bauð Samfylkingin Halldóri forsætisráðuneytið. Halldór kaus hins vegar að vinna áfram með Sjálfstæðisflokknum, en samdi hins vegar um að hann yrði forsætisráðherra á miðju kjörtímabili.

Einn viðmælandi mbl.is, úr hópi framsóknarmanna, sagði ósennilegt að gert yrði samkomulag um að skipta um forsætisráðherra á miðju kjörtímabili. Reynsla frá 2003 hefði ekki verið góð.

Hvað gerir forsetinn?

Ekki er ólíklegt að vinstriflokkarnir velti fyrir sér hvort þeir geti komið í veg fyrir samstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks með því að bjóða Bjarna eða Sigmundi Davíð forsætisráðuneytið. Einn framsóknarmaður sagði í samtali við mbl.is, að sér kæmi ekki á óvart að gamlir refir í Samfylkingunni væru þegar búnir að bjóða Bjarna Benediktssyni að styðja hann til að verða forsætisráðherra í ríkisstjórn með Samfylkingu og VG. Annar viðmælandi sagðist reikna með að formenn Samfylkingarinnar, VG og Bjartrar framtíðar myndu leggja að forseta Íslands að veita Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni umboð til að mynda ríkisstjórn.

Ólafur Ragnar sagði í gær að hann myndi hlusta á það sem formenn flokkana leggja til við hann í dag. Allt bendir til að byrjað verði að reyna að mynda ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Sú spurning vaknar hvort formenn hinna flokkana fara á þessu stigi að leggja til við forsetann hver eigi að fá umboðið þegar fyrir liggur að þeir munu ekki taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum, a.m.k. ekki til að byrja með.

Flest bendir til að Bjarni og Sigmundur Davíð hafi báðir sagt við forsetann í dag að þeir séu tilbúnir til að hafa forystu um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Líklegt er að forsetinn taki sér stuttan tíma til að velta þessu fyrir sér og að í framhaldinu hefjist formlegar viðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Eftir síðustu kosningar veitti forsetinn Jóhönnu Sigurðardóttur umboð til að mynda ríkisstjórn síðdegis á mánudeginum eftir kjördag. Eftir kosningarnar 2007 veitti hann Geir H. Haarde ekki umboð til að mynda ríkisstjórn fyrr en fimm dögum eftir kosningar, en þá var orðið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn treysti sér ekki til að halda áfram samstarfi við Framsóknarflokkinn.

Samkomulag um málefni?

Sumir kunna að segja að það skipti ekki máli hver verður forsætisráðherra. Aðalatriðið sé hvað ný ríkisstjórn ætlar að gera. Einn viðmælandi mbl.is sagði að það skipti miklu máli hver yrði forsætisráðherra. Hann sagði að Sigmundar Davíð væri vinsælli stjórnmálamaður en Bjarni og það væri gott fyrir nýja ríkisstjórn, sem þarf að taka á erfiðum verkefnum, að fyrir henni færi maður sem nyti víðtæks trausts.

Þó Framsóknarflokkurinn sé ótvíræður sigurvegari kosninganna er ekki víst að framsóknarmenn geti bæði gert kröfu um forsætisráðherrastólinn og krafist þess að samstarfsflokkurinn fallist algerlega á þeirra aðalkosningaloforð um beina lækkun skulda heimilanna. Ekki er víst að þingflokkur sjálfstæðismanna líti svo á að slíka niðurstaða endurspeglaði jafnvægi milli flokkanna. Lausnin gæti falist í því að farin yrði blönduð leið, sem byggði að nokkru leyti á loforði Sjálfstæðisflokksins um skattalækkun til að greiða niður höfuðstól lána.

Ljóst er að Bjarni og Sigmundur þurfa að vanda sig þegar þeir tefla úr þeirri stöðu sem nú er komin upp. Takist þeim ekki að ná samkomulagi um myndun nýrrar stjórnar kemur upp alveg ný staða. Þá gæti annar hvor þessara flokka myndað ríkisstjórn með vinstriflokkunum. Mörg dæmi eru um að flokkar sem töpuðu illa í kosningum endi í ríkisstjórn eftir kosningar. Frægast dæmið er kannski þegar Ólafur Jóhannesson myndaði vinstristjórn árið 1978 eftir að hafa beðið sögulegt skipbrot í kosningum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum eftir …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum eftir fund með forseta Íslands. mbl.is/Golli
Steingrímur Hermannsson varð forsætisráðherra þegar Framsókn og Sjálfstæðisflokkur mynduð ríkisstjórn …
Steingrímur Hermannsson varð forsætisráðherra þegar Framsókn og Sjálfstæðisflokkur mynduð ríkisstjórn árið 1983.
Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðubandlagsins, lagði til við forseta Íslands …
Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðubandlagsins, lagði til við forseta Íslands árið 1995, að Halldór Ásgrímsson fengi umboð til stjórnarmyndunar. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert